07.05.1923
Efri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

139. mál, fjáraukalög 1923

Ingibjörg H. Bjarnason:

Það er aðeins örlítil athugasemd. Hv. frsm. (EÁ) gat þess í sambandi við brtt. mína, að hann þekti ekki, á hvaða grundvelli Kvenrjettindafjelagið starfaði nú.

Jeg er samdóma háttv. frsm. (BA) um það, að þar sem tilgangur fjelagsins var áður pólitískur, þá hljóti sá grundvöllur nú að vera fallinn, því eins og kunnugt er, hafa konur hjer á landi fengið full pólitísk rjettindi. En jeg hjelt, að það, sem jeg las hjer upp áðan í sambandi við umsóknina, hefði fyllilega skýrt tilganginn, og að það hefði ekkert átt skylt við stjórnmál nje borið neinn pólitískan lit. Það, sem liggur til grundvallar fyrir beiðni þessari, eru nánari kynni kvenna hver af annari og þeim staðháttum, sem þær eiga við að búa. Á því sviði ætti fundurinn að geta orðið til góðs. Fundarefni, eða dagskrá, er enn ekki svo tilbúið, að lagt verði fram. En mjer er það þó að mestu kunnugt og get vel aðhylst það.

Jeg vona, að allir hv. þdm. skilji, að það eru aukin kynni, sem skapa fjelagsskap í þessu strjálbygða landi, og sjái þess vegna þörfina á því, að þessi fyrsti almenni kvennafundur megi takast, og greiði þess vegna till. atkv. sín.