09.05.1923
Efri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

139. mál, fjáraukalög 1923

Karl Einarsson:

Jeg skal ekki verða langorður. Til þess að stytta mál mitt sem mest, tek jeg aftur fyrri tillöguna undir tölul. V á þskj. 606. Ekki vegna þess, að jeg álíti ósanngjarnt, að ríkissjóður beri 1/3 af kostnaði, sem þegar er orðinn á bryggjusmíðinni, (heldur af því, að fjárhagurinn er þröngur og varlega farandi í öllum fjárveitingum. Því verður þetta að bíða betri tíma. Þá er hin tillagan undir tölul. V. Björgunarfjelagið hefir ekki getað safnað í sjóð og eftir óhappið með Þór í vetur bættist við nýr kostnaður. Það var nýbúið að gera við skipið áður en það brotnaði. Vænti jeg því, að háttv. deild sýni fjelaginu þá velvild að veita því þessa upphæð.

Þá er tillagan um ábyrgðarheimildina. Hún mælir með sjer sjálf, og skal ekki um hana fjölyrt. Jeg skal svo ekki ræða meira um mínar brtt.