09.05.1923
Efri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

139. mál, fjáraukalög 1923

Jón Magnússon:

Það hefði máske verið heppilegra, að hæstv. forsrh. (SE) hefði verið viðstaddur, en jeg býst að vísu ekki við að segja neitt, sem andmæla þurfi. Hv. fjvn. mun kunnug beiðni Jóns Gíslasonar. En ástæðan til þess er sú, að í fyrra haust var auglýst laus dyravarðarstaðan við stjórnarráðið. Margir sóttu um, en dregið var að veita fram undir þing í fyrra. Gerði jeg það til þess að ekkja Magnúsar Vigfússonar gæti orðið sem lengst í húsinu. En um það leyti setti jeg, með ráði skrifstofustjóra, þennan mann í stöðuna, en hann var einn af umsækjendum. Jeg taldi rjettara að setja hann, vegna þess að mjer þótti ástæða til þess, að það yrði prófað, hvernig honum Ijeti staðan, áður en embættið yrði veitt. En jeg sagði honum, að ef hann reyndist vel, þá mundi hann fá veitingu. Skildi hann þetta og ljet sjer lynda. En er til kom og maðurinn ætlaði að taka við stöðunni. sagði núverandi forsætisráðherra honum það, að ekkert væri því til fyrirstöðu að vísu, að hann kæmist í stöðuna, en hann fengi eigi að halda stöðunni nema til haustsins. Þá yrði hún veitt öðrum. Þetta voru mikil vonbrigði fyrir manninn og auðvitað sama sem að neita honum um að taka við, því að auðvitað gat ekki komið til tals, að maðurinn tæki við starfinu sumarmánuðina aðeins. Jeg þarf ekki að lýsa þessu frekar; jeg býst við, að hv. deild finnist sanngjarnt, að maður þessi fái nokkra uppbót. Jeg hefi talið mjer skylt að flytja þetta, því að það var að nokkru leyti mjer að kenna, að maðurinn fjekk ekki stöðuna; jeg hefði getað skipað hann.

Jeg fer ekkert út í það, hvað olli því, að þetta gat ekki staðið; jeg hefi aðeins sagt þetta til skýringar og læt ráðast, hvernig hv. deild tekur í málið.