11.05.1923
Neðri deild: 61. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1482 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

139. mál, fjáraukalög 1923

Hákon Kristófersson*:

Jeg á að þessu sinni nokkrar brtt. við fjáraukalögin, á þskj. 621. Um tvær þær fyrstu er það að segja, að jeg hefi nú, síðan þær komu fram, öðlast betri skilning á hlutaðeigandi mönnum, og tek þær því báðar aftur. Teldi jeg ómaklegt að svifta þá menn, sem þar ræðir um, styrknum.

Um þriðja liðinn get jeg látið það um mælt, að jeg hefi ekki sjeð liggja fyrir læknisvottorð, er sýni, að sá maður sje sjúkur. Hitt veit jeg líka, að vel hefir verið með hann farið heima í hjeraði. Sýnist því lítil ástæða til að veita honum þennan styrk.

Jeg hefði að vísu flutt fleiri brtt. við fjáraukalögin, en það er við ramman reip að draga. Er það enda svo, að um flestar brtt. við fjáraukalögin stendur flokkur manna, og á jeg þar t. d. við brtt. hv. fjvn., og sýnist ekkert soramark vera á þeim.

Þá á hv. þm. N.-Þ. (BSv) brtt. á þskj. 621, sem hann hefir nú nýlega talað fyrir. Jeg vil ekki segja, að hún eigi ef til vill ekki rjett á sjer, en hitt er mjer ljóst, að sje hún samþykt, þá er með því gefið fordæmi, sem ekki er sjeð, hvað að hlýst að lokum. Get jeg ekki gengið inn á, að húsin sjeu keypt ómetin. Þætti mjer best við eiga, að sala þeirra færi fram, þegar presturinn fer af jörðinni, svo sem venja er til. Veit jeg um fleiri prestssetur, engu ver setin og um gengin, og mætti svo fara, að þau annars þættust eiga heimting á þessu sama. Auk þessa hefir mjer verið tjáð, að húsin á þessu prestssetri muni tæpast vera eins mikils virði og af hefir verið látið, en hæstv. stjórn býst jeg við að kunni því illa að fara að þrýsta niður verðinu. Yfirleitt finst mjer þetta óvanaleg aðferð og get ekki ljeð brtt. atkvæði mitt. Er það, eins og jeg áður tók fram, algengast, að presturinn fái bætur á húsinu við brottför sína. Hvað því viðvíkur, að selja þessa jörð, eins og hæstv. forseti (BSv) tók fram, að til mála gæti komið, þá býst jeg ekki við, að það verði ofan á, og því óþarft að fara frekar út í þá sálma.

*) Þm. (HK) hefir ekki yfirlesið ræðuna.