11.05.1923
Neðri deild: 61. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

139. mál, fjáraukalög 1923

Benedikt Sveinsson:

Háttv. þm. Barð. (HK) fann hvöt hjá sjer til þess að vega á móti tillögu minni um heimild stjórnarinnar til að kaupa staðarhúsin að Borg á Mýrum, og þótti mjer hann þar óþarflega hlutsamur. Jeg hygg, að tillaga mín verði ekki talin ósanngjörn. Háttv. þm. (HK) vildi gefa í skyn, að 12000 kr. væri of hátt verð fyrir húsin. En þeir, sem komið hafa að Borg og sjeð hin stórmannlegu húsakynni þar, munu geta vottað, að slíkum húsum verður ekki komið upp fyrir það fje. Auðvitað sæta þau fyrningu sem önnur hús; annars mundi þetta verð ekki heldur ná nokkurri átt. Hjer er heldur ekki um ákveðna upphæð að ræða. Jeg gat þess, að presturinn hefði nefnt 10– 12 þús. kr. í brjefi sínu, en verðið fer auðvitað eftir mati óvilhallra manna, enda stendur „alt að 12000 kr.“ í tillögunni.

Háttv. þm. (HK) taldi þó sjálfsagt að kaupa húsin, þegar presturinn færi frá kallinu. En svo gæti farið, að það yrði bráðlega. Háttv. þm. er því að nokkru leyti á mínu máli, að rjett sje að kaupa húsin, og skilst mjer hann líta svo á, að enga sjerstaka heimild þurfi til þess, þegar presturinn fer frá. Finst mjer þá, að það komi í einn stað niður, hvort kaupin eru heimiluð nú þegar, eða þau fara fram eftir stuttan tíma, því að vel má vera, að presturinn fari frá kallinu þegar á þessu ári.