09.03.1923
Neðri deild: 16. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ingólfur Bjarnarson:

Það er aðeins eitt atriði, sem jeg vild athuga stuttlega í þessu máli, sem sje um persónufrádráttinn. Hv. meiri hl. fjárhagsnefndar telur heppilegt að halda þeim ákvæðum, sem þar að lúta, í gildandi skattalögum, og háttv. 2. þm. Reykv. (JB) vill hækka þann frádrátt um helming. Hafa verið dregin fram ýms dæmi, sem hafa átt að sýna það, að þessi frádráttur kæmi einkum til góða lægstu skattgreiðendunum. En þetta tel jeg villandi, því það er bersýnilegt, að þessi frádráttur kemur einmitt mest til góða hæstu gjaldendunum, vegna hundraðsgjaldsins, sem getur orðið 60-falt á hæstu skattgreiðendunum móts við þá lægstu, miðað við skattstiga stjórnarfrv. Má nefna sem dæmi, að á manni, sem hefir 25 þús. kr. tekjur, nemur skattlækkunin vegna 1000 kr. persónufrádráttar, og miðað við stjfrv. 190 kr., en aðeins kr. 7.50 hjá skattgreiðanda, sem hefir 2500 kr. Það er því auðsjeð, að persónufrádrátturinn hefir stórmikla þýðingu til lækkunar skattinum. (JakM: Skattstiginn tekur tillit til þessa frádráttar). Að nokkru leyti máske. En þegar litið er til þess, að breytingar hæstv. stjórnar á skattalögunum eru aðallega fram komnar til þess að ljetta skattinum af lægstu gjaldendunum, og hækka hann frekar á þeim hæstu, og þar sem mjer skilst, að flestir, sem tekið hafa til máls, fallist á þá stefnu, tel jeg niðurfelling persónufrádráttarins í stjfrv. rjettmæta og heppilega.