12.05.1923
Sameinað þing: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

139. mál, fjáraukalög 1923

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg hjelt ekki, að þau fáu orð, sem jeg sagði í hv Ed. í dag, mundu verða afbökuð hjer, svo sem raun er á orðin, og neyðist jeg því til að standa upp og leiðrjetta afbakanir og útúrsnúninga háttv. 2. þm. Rang. (GGuðf).

Háttv. þm. (GGuðf) las ekki upp álit læknanna við háskólann fyr en eftir að jeg hafði gert athugasemd mína, svo það er alls ekki um það að ræða, að jeg hafi ætlað mjer að knjesetja þá. Jeg gat þess, að fyrir utan lækna væru engir hjer, sem mundu þekkja þetta áhald betur en jeg. Jeg hefi reynsluna, þótt jeg sje ekki læknir. Þetta áhald er tiltölulega nýtt; það eru 4–5 ár síðan fyrst var farið að nota það á Norðurlöndum. Það var, að jeg hygg, notað fyrst 1919 á stórum baðstað í Danmörku, þar sem jeg dvaldi nokkrar vikur þá um sumarið. Jeg sagði, að til þess að nota þetta áhald, þyrftu læknarnir að hafa næga þekkingu og mikla ábyrgðartilfinningu. Mjer er kunnugt um, að við notkun þess geta menn fengið sár, sem erfitt er að lækna og seint gróa. Ef hv. 2. þm. Rang. (GGuðf) vildi skilja mig rjett og rangfærslulaust, þá var skoðun mín sú, að jeg álít áhald þetta gott í höndum góðra lækna, en tvíeggjað sverð í höndum þeirra, sem ekki kunna með það að fara. Og jeg hygg, að nú sem stendur sje hjer enginn slíkur læknir til. Ef landsspítalinn þolir að bíða um óákveðinn tíma, þá finst mjer, að þetta áhald megi ekki síður bíða.