12.05.1923
Sameinað þing: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1500 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

139. mál, fjáraukalög 1923

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg vil bera það af mjer, að jeg hafi rangfært mikið orð hv. 6. landsk. þm. (IHB). Það var rjett, að jeg gleymdi að lesa upp álit læknanna fyr en á eftir, en jeg bjóst við, að þeim háttv. þingmönnum, sem tala í einhverju máli, mundu kunnust öll gögn, sem liggja frammi í því. Hv. 6. landsk. þm. segist tala af reynslu í þessu máli. Já, hún nefnir þetta eina sár; en hversu mörg sár hafa ekki hlotist af Röntgentækjum. Enginn mun telja það hættulaust að nota Röntgentæki, en ekki munu þau talin forkastanleg fyrir það Það þykir sjálfsagt að nota þau í öllum menningarlöndum. Hv. 6. landsk. þm. talaði um ábygðartilfinningu sem þyrfti að hafa til þess að geta farið með þetta áhald. Jeg hygg, að íslensku læknarnir hafi engu minni ábyrgðartilfinningu en kollegar þeirra erlendis, svo það ætti ekki að þurfa að verða þessu að falli.