12.05.1923
Sameinað þing: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

139. mál, fjáraukalög 1923

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg ætla ekki að etja kappi um þetta mál; en jeg hefi viljað fylgja máltækinu „að betra er að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í“. Jeg vil hafa tryggingu fyrir því, að hjer sje einhver til, sem með verkfærið kann að fara, áður en það er keypt. Ágætur læknir í Danmörku, sem notar þetta áhald mikið, er góður kunningi minn. Hann sagði, að jeg skyldi aldrei láta lækna mig með verkfæri þessu, nema jeg væri viss um, að það væri í góðra manna höndum.

Út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. (MJ) sagði, að það ætti að fara til landsspítalans og spurði, hvort það væri endingargott, þá get jeg upplýst það, að þessar 6 vikur, sem jeg var á baðstaðnum, sem jeg gat um áðan, bilaði það tvisvar og þrisvar í viku. Svo jeg legg ekki mikið upp úr þeirri erfðaskrá, sem ánafnar landsspítalanum áhald það, sem nú á að fara að kaupa, ef þessi brtt. verður samþykt.