12.05.1923
Sameinað þing: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1503 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

139. mál, fjáraukalög 1923

Jakob Möller:

Þessar till. á þskj. 635 voru orðnar svo þrautræddar áður, að jeg bjóst ekki við umr. nú. En það voru ummæli í ræðu háttv. 5. landsk. þm. (JJ), sem gáfu mjer tilefni til þess að segja örfá orð. Jeg skil ekki, hvernig menn geta farið að amast við þeirri sanngirniskröfu, að símakonur við bæjarsímann njóti sömu launakjara og stallsystur þeirra við landssímann, þegar það er upplýst, að starf þeirra sje engu minna um vert og engu vandaminna en hinna, og þegar það þar að auki er viðurkent af flestum, að launin sjeu nú lægri hjá þeim en víðast hvar annarsstaðar. Til þessara starfskvenna mundi fara mikill hluti upphæðarinnar, sem fram á er farið, en þó svo, að eftir yrðu 4–5 þús. kr. til annara starfsmanna símans. Og ekki skil jeg, hvað 5. landsk þm. (JJ) þarf að vera að amast við því, eða telja það of hátt, þar sem hann hefir sjálfur flutt till. um uppbót handa einum þessara starfsmanna. 1600 kr., en það er hærra en ætlað er nokkrum hinna. Það er þó fjarri því, að jeg sje að amast við þeirri till., því jeg var sjálfur með styrk til þessa manns. Það er að vísu satt, sem háttv. þm. (JJ) sagði, að þessi maður á mörg börn, en flestir hinna engin. En það getur þó ekki verið ætlun háttv þm. að koma þannig ómegð hans yfir á hina. Jeg vænti þess því, að að öllu athuguðu muni háttv. Sþ. fallast á þessa uppbót.

Af því að jeg er meðflutningsmaður að annari till. líka, sem allmikið hefir verið ráðist á, sem sje um „diathermi“ -áhaldið, verð jeg að segja nokkur orð um hana líka. Þó jeg sje ekki læknir, hefi jeg svo mikla nasasjón af þessum efnum, eins og reyndar allir hv. þm„ að jeg veit, að það er ekkert sjerkenni á þessu verkfæri, að því geti fylgt hætta. Það er svo með allar lækningar. Þær geta ekki einungis kostað hættu, sár eða slíkt; þær geta beinlínis kostað lífið, og í hvert sinn, sem maður legst á skurðarborð, á hann það óvíst, hvort hann stendur þaðan upp aftur. Þar fyrir fara menn ekki að banna skurðlækningar. Hitt er alkunnugt og ekkert tiltökumál í þessu sambandi fremur en öðrum, að slíkt getur verið mismunandi hættulegt í mismunandi höndum. Það eru til læknar, er bein lífshætta er að leggja sig í hendurnar á. Hjer á slíkt auðvitað ekki að koma til greina, þar sem um það er að ræða, að læknadeild háskólans ráðstafi þessu. Og það, sem menn greiða því atkvæði um, er það, hvort þeir treysta henni til þessa máls eða ekki.