09.03.1923
Neðri deild: 16. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller:

Hv. þm. Ak. (MK) ljet sjer þau orð um munn fara, að jeg hefði varið mestum hluta æfi minnar til að blekkja aðra menn bæði í ræðu og riti. Jeg býst við, að augnagotur þar, sem fylgdu þessum ummælum háttv. þm hafi stafað af slæmri samvisku og óttanum við það, að þeim, er á heyrðu. kynni að finnast hann vera hjer að eigna öðrum sína eigin kosti. Því verður heldur ekki neitað, að háttv. þm. sýndi mjög heiðarlega viðleitni í þessa átt í ræðu sinni áðan. Hitt er annað mál, að tilraunin brást, eins og svo oft áður, enda var hún undarlega ófimleg af manni, sem hefir þó fengið slíka æfingu. Yfirklór hans hjer var svo gagnsætt, það er í rauninni engin þörf að benda á það. Því auðvitað er samanburður hans í gær jafnvitlaus fyrir því, þótt hann geri annan í dag. Jeg skal viðurkenna það, að samanburður hans í dag er skárri. En hverju eru þær framfarir háttv. þm. að þakka? Því, að jeg setti ofan í við hann í gær og sýndi fram á, hve ósvífinn sá samanburður var. Jeg endurtek það, „ósvífinn“, því þótt slík blekkingartilraun þýði lítið við hv. deildarmenn, þá er það ósvífni að ætla sjer þannig að blekkja áheyrendurna, sem ekki hafa nein skjöl eða skilríki til að sjá af, hvað rjett er og rangt í þessu máli.

Það er að vísu ýmislegt í ræðum sumra háttv. þm., sem jeg hefði viljað gera athugasemd við og leiðrjetta, en þar sem umræður hafa nú staðið svo lengi, en jeg hins vegar dauður, þá get jeg vel látið mjer lynda að sleppa þeim.