11.04.1923
Neðri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1511 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

115. mál, verslun með smjörlíki

Eiríkur Einarsson:

Jeg get að öllu leyti fallist á það, sem háttv. frsm. (BH) sagði um nauðsynina á að setja lagareglur um tilbúning og verslun með smjörlíki og aðrar vörur, sem nefndar eru í frv. Einnig get jeg tekið í sama streng sem hann, að mig brestur kunnugleika til að geta dæmt um, hvernig þetta mætti best fara. Í þeim efnum verður að treysta sjerfróðum mönnum, svo sem höfundum þessa frv. En þó að sjerfræðingar hafi samið frv., er því ekki að leyna, að þeir hafa sótt fræði sín til erlendrar reynslu, sem vitanlega mun að flestu leyti eiga við hjer. En svo getur staðið á, vegna sjerstakra staðhátta hjer, að breyta þurfi einhverju. Því vil jeg geta þess strax, við þessa umræðu, að í frv. eru nokkur ákvæði, sem getur verið ástæða til að fella niður eða breyta, vegna þess hve sjerstaklega stendur á hjer. Á jeg hjer einkum við ákvæði 5. gr., þar sem bannað er að framleiða smjörlíki þar, sem smjörgerð er höfð um hönd, og að nota sömu tæki til skiftis við framleiðsluna. Nú munu háttv. þm. minnast þess, að á síðasta þingi var þannig löguð viðleitni styrkt, þar sem Áslækjarbúinu í Hrunamannahreppi var veitt fje til þess að gera tilraunir með smjörlíkisgerð samhliða rjómabússtarfsemi. Þessi styrkur var hagnýttur síðastliðið sumar, og hefi jeg heyrt, að tilraunin hafi hepnast mjög vel. Það var gerð tilraun til þess að nota þær mjólkurleifar, sem mönnum verður annars lítið úr, sem sje áfirnar, og eitthvað af smjöri var haft til bragðbætis, og af þessu varð smjörlíkið svo gott, að hlutaðeigendur, sem bæði notuðu það sjálfir heima fyrir og seldu til kaupstaðanna, láta hið besta yfir. Sjerstaklega kvað þetta smjörlíki geymast vel, og þegar það fyrnist, reynist það betur en erlent smjörlíki. Þessi litla tilraun er svo góð og mikilsverð, að háttv. deild ætti að hugsa sig um áður en hún kæfir hana í fæðingunni með þessum ákvæðum.

Jeg veit, að það er ómaksins vert að reyna að varna við vörusvikum, hvort sem um smjör er að ræða eða smjörlíki, og að varúðarreglur eru sjálfsagðar í þessum efnum. En jeg veit ekki. hvort varnagli er sleginn á rjettan hátt með ákvæðum 5. gr. Ef þeir, sem hlut eiga að máli, eru óvandaðir og svikulir, geta þeir svikið vöruna þrátt fyrir þetta. Þó að þeir megi ekki búa til smjörlíki í rjómabúum, gætu þeir auðveldlega keypt það að og blandað við smjörið, ef þeir vildu hafa sig til þess. En auðvitað mundu engir gera slíkt, nema óráðvandir menn.

Þá er gert ráð fyrir því í frv., að þar sem smjörlíki sje búið til, sje það mótað í skökur af ákveðinni þyngd. Jeg hygg, að fyrir austan hafi verið sá siður að drepa því í kvartil sem smjöri, og er það miklu haganlegra til flutnings. Vil jeg leyfa mjer að skjóta til hv. landbn., hvort ekki muni unt að auðkenna umbúðirnar svo, að ekki sje um að villast, þó að smjörlíkið væri flutt í kvartilum.

Sektarákvæðin, að 100–1000 kr. útlegð liggi við brotum á lögunum, finst mjer varla ná tilgangi sínum. Þau lúta of mjög að formsatriðum, en of lítið að veruleikanum, hverrar sektar það er vert, ef það vitnaðist, að smjör væri svikið, þótt hegningarlögin komi að vísu þar til greina í ýmsum efnum. Jeg álít að hjer þurfi hörð sektarákvæði, til þess að menn hafi altaf ótta af, að þarna beri að vanda sig, því að aldrei er of vandlega búið um eftirlitið.

Þetta er fátt af mörgu, sem athugavert er við frv., og vildi jeg benda strax á það, hvort sem jeg eða einhver annar verður til að koma með brtt. í þessa átt við 2. umr. Með slíkar brtt. er vandfarið, þar sem menn brestur kunnugleika á málinu, en hins vegar óttast jeg, að það kunni að valda óþægindum fyrir þá. er hafa byrjað umrædda smjörlíkisgerð að tilstuðlun Alþingis, ef það skipar þeim nú að hætta.