11.04.1923
Neðri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

115. mál, verslun með smjörlíki

Frsm. (Björn Hallsson):

Háttv. 1. þm. Árn. (EE) hafði ýmislegt við frv. að athuga, og gat jeg satt að segja búist við því. Hann gat þess, sem jeg hafði tekið fram, að frv. væri sniðið eftir erlendum lögum, en það er mjög eðlilegt, þar sem hjer hafa ekki verið fyr sett lög um þetta efni og engin reynsla fengin.

Hann var aðallega óánægður með 5. gr., en ákvæði þeirrar greinar eru sett til þess að tryggja, að síður verði unt að blanda smjörlíki við smjör, með því að banna að framleiða hvorttveggja á sama staðnum, og enn fremur er tekið fram, að sömu tæki megi ekki nota til skiftis til smjörgerðar og smjörlíkis, svo að smjörið dragi ekki dám af eftirlíkingunni. Það getur vel verið, að svo megi búa um og fara svo vel með, að ekki komi að baga, en það hlýtur altaf að vekja tortrygni. En ákvæði greinarinnar er aðeins tryggingarráðstöfun í þessu efni. Hvorki jeg nje landbn. flytur þetta frv. til þess að setja það til höfuðs smjörlíkisframleiðslunni; þvert á móti, það er flutt af þeirri ástæðu einni, að nauðsynlegt er að setja ákvæði um; hvað sje gott og gilt smjörlíki. En auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu að íhuga athugasemdir háttv. þm. til 2. umr, og býst jeg við, að landbn. telji það ekki eftir sjer. Það getur vel verið, að þetta ákvæði 5. gr. komi allilla niður á Áslækjarbúinu, vegna smjörlíkisgerðarinnar þar, en við því verður tæplega gert, ef tryggja á það, að ekki komist inn tortryggni á erlendum og innlendum markaði gagnvart sölu á íslensku smjöri. Ef smjör og smjörlíki er framleitt á sama stað, er altaf hætt við tortryggni viðvíkjandi svikum.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) þótti sneitt hjá umsögn og reynslu verslunarstjettarinnar í þessu máli. Það er rjett, að landbn. hefir ekki borið frv. undir neinn verslunarfróðan mann, og í greinargerðinni er tekið fram, hverjir hafi samið það. Fyrir mitt leyti er jeg ekki mótfallinn því, að leitað verði álits verslunarfróðra manna, og býst jeg við að geta lofað því fyrir hönd nefndarinnar. Er eflaust rjett að athuga frv. líka frá þeirri hlið, svo að trygðir sjeu hagsmunir hvorstveggja, kaupanda og seljanda. Nefndin er fús til að taka allar sanngjarnar till. til greina sem horfa til umbóta á frv., og mun athuga það nánar til 2. umræðu.