21.04.1923
Neðri deild: 47. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

115. mál, verslun með smjörlíki

Frsm. (Björn Hallsson):

Við 1. umr. þessa máls komu fram nokkrar raddir um það, að ýmislegt væri við frv. þetta að athuga. Meðal annars sagði háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ), að það bæri það ekki með sjer, að verslunarfróðir menn hefðu um það fjallað. Einnig gerði hv. 1. þm. Árn (EE) athugasemdir við ákvæði 5. gr. Út af þessu hefir nefndin tekið málið aftur til athugunar. Hefir hún sent verslunarráðinu málið til umsagnar, en það hafði ekkert við það að athuga nema um það, hve nær lögin gengju í gildi. Vildi verslunarráðið láta lögin ganga í gildi 1. jan. 1924. Nefndin taldi þessa breytingu enga þýðingu hafa og flytur ekki brtt. um það.

Nefndin hefir samt borið fram 4 brtt. á þskj. 382, og eru þær allar samþyktar á nýafstöðnu búnaðarþingi, enda voru þær gerðar í samráði við frumhöfunda frv., Trausta Ólafsson efnafræðing og frk. Önnu Friðriksdóttur, sem nefndin kvaddi líka til viðtals á sinn fund. Brtt. eru að mestu aðeins orðabreytingar, en ekki efnis, nema í 1. gr., þar sem bætt er inn „mjólk“ á eftir „rjóma“, svo að ekki verði útilokað, að smjör megi framleiða úr nýmjólk óskilinni. Miða hinar brtt. við 1. gr. eingöngu til þess að bæta málið, og felst nefndin á þær og telur þær til bóta.

Önnur brtt. er aðeins orðabreyting; fyrir „inniheldur“ komi: í er.

Þriðja brtt. er skýring á orðalagi greinarinnar og niðurröðun á efni hennar, en engin efnisbreyting.

Fjórða brtt. er orðabreyting. Býst jeg við, að hv. þingdeild geti fallist á þessar brtt., til þess að málið á frv. batni.

Út af ummælum hv. 1. þm. Árn. (EE) skal jeg geta þess um 5. gr., að nefndinni þótti ekki tiltækilegt að breyta henni í það horf, sem þessi háttv. þm. fór fram á, eða að veita smjörlíkisgerðinni þar austan fjalls undanþágu. Það er að vísu vandi að setja trygg ákvæði um þetta. En grundvallarreglan álítur nefndin, að eigi að vera sú, að aðgreina beri greinilega smjörbúin og smjörlíkisgerðirnar, því hitt gæti komið óorði á smjörið innanlands og utan, hvort sem ástæða væri til þess eða ekki. En þessi grundvallarregla væri brotin, ef undanþága sú væri veitt, sem till. háttv. 1. þm. Árn. (EE) fer fram á. Það er vont að hafa glögg takmörk á annan hátt en banna framleiðslu smjörlíkis á sama stað og smjörs. Hefir nefndin því sett það í frv.