21.04.1923
Neðri deild: 47. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

115. mál, verslun með smjörlíki

Eiríkur Einarsson:

Jeg ætla aðeins að segja fáein orð um brtt. mína á þskj. 412. Jeg hefi getið þess áður, að þetta frv. kæmi hart niður á þeim mönnum í Hrunamannahreppi eystra, sem þegar eru byrjaðir á smjörlíkisgerð í sambandi við smjörbú sitt þar. Jeg hefi þess vegna orðað brtt. mína á þann hátt, að veita aðeins undanþágu fyrir þennan eina stað. Ætti það að vera meinlaust fyrir öryggi markaðsins, þar sem Ytrihreppsbændur eru þeir einu, sem hafa stofnað til slíks sambýlis, kunna vel með að fara og hefir gefist vel það sem af er. Yrði þeim mikill skaði að því, ef nú yrði varnað áframhalds á því verki, sem þingið sjálft hefir nýlega stutt þá til, með lánveitingu í fyrra. Það ætti því að vera alveg nóg, að lögin fyrirbygðu, að til slíks yrði stofnað hjer eftir. Er jeg viss um, að ekki er hættara við sviknu smjöri frá Hreppamönnum, þótt smjörlíkisgerð þeirra fái að haldast óáreitt, heldur en átt gæti sjer stað hjá öðrum, er miður kynnu að vera vandir að smjörgerðinni, þótt lagaákvæði væru til, er þetta ættu að tryggja.

Jeg skal svo láta mjer nægja að vísa til þess, sem jeg hefi áður sagt um málið, og vona, að háttv. deild samþykki brtt. mína, þar sem hún er bæði meinlaus, rjett og sanngjörn.