09.03.1923
Neðri deild: 16. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Auðunn Jónsson:

Það er auðsætt sem fyr, að háttv. minni hluti nefndarinnar miðar jafnan við einhleypa menn, en ekki við kvænta, og mátti bert sjá það af ræðu háttv. þm. Ak. (MK). Jeg verð þó sem áður að halda því fram, að fjölskyldumenn verði ljettara úti í skattgjaldinu samkvæmt till. okkar meiri hluta manna, í kaupstöðum þurfa þeir, sem kvæntir eru og hafa börn, engan skatt að borga, ef tekjur þeirra fara ekki fram úr 2500 kr. Um einhleypa menn er öðru máli að gegna. Þeir þola betur að taka nærri sjer og borga, þótt af lágum launum sje.

Háttv. 1. þm. Revkv. (JakM) hefir þegar leiðrjett þann misskilning, sem kom fram hjá háttv. 1. þm. S.-Þ. (IngB). Jeg vil þó aðeins bæta því við, að hafi sá hv. þm. bara reiknað persónufrádráttinn. Þá eru tölur þær, er hann fjekk út, alt of háar. Það hlýtur því að vera þar um reikningsskekkju að ræða.

Jeg þarf ekki heldur að svara hæstv. fjrh. (MagnJ), því það hafa aðrir gert. Hann ljet í ljós, að ekki myndi tiltækilegt að reikna frá aukaútsvörin, sökum aukins skrifstofukostnaðar hjá skattstofunum. Jeg fæ nú ekki sjeð, að það þyrfti að vera svo mikil aukin vinna. Skattanefndirnar þyrftu ekki annað en skrifa niður tölur úr aukaútsvaraskránum.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JB) sagði, að það væri að taka brauðið frá börnunum, ef till. meiri hluta nefndarinnar næði fram að ganga. Mig furðar á því, að hv. þm. skuli vaxa svo í augum þær 8 krónur, sem fjölskyldumenn alþýðunnar kæmu að meðallagi til að greiða. Það er þó ekki nema brothluti af þeirri upphæð, sem þeir eftir núgildandi lögum eru til neyddir að gjalda í óbeinan skatt. Gerum ráð fyrir fjölskyldumanni, sem á 3 börn og hefir 3000 kr. árlegar tekjur. Hann myndi borga 8 kr. í tekjuskatt, en 50–60 kr. í óbeinum sköttum, þótt tóbak og annar slíkur „luxus“ sje ekki reiknaður með. Jeg verð því að endurtaka undrun mína yfir því, að hinum háttv. þm. vaxa þessir beinu skattar svo mjög í augum.

Að lokum gat háttv. frsm. minni hl. (ÞorlG) þess, að ríkissjóður myndi ekki mega við því, að till. meiri hl. verði samþyktar. Mjer þykir þetta dálítið undarlegt, þar sem auðsætt er, að tekju- og eignarskatturinn verður hærri eftir þeim en hann er nú samkvæmt gildandi lögum.