04.05.1923
Efri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

115. mál, verslun með smjörlíki

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Frv. þetta er nýmæli. Áður hafa engin lög verið um þetta efni. Þetta frv. mun vera sniðið eftir dönskum og þýskum lögum um sama efni. Nú er farið að framleiða talsvert af smjörlíki hjer á landi, og auk þess er mikið flutt inn af því, svo ekki mun vera þarflaust að setja lög um þetta efni.

Landbúnaðarnefnd hefir athugað þetta frv., eftir því sem henni var unt, en frv. er nýlega komið frá hv. Nd., svo tíminn var stuttur til athugunar. Hún sá þá ekki annað en að frv. væri nákvæmt og þarflegt, og mælir með því, að það gangi fram óbreytt.