09.03.1923
Neðri deild: 16. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Jeg býst við, að umræðum um þetta mál fari nú að slota, og skal því ekki lengja umr. frekar með því að fara út í smáatriði málsins. Eitt er þó, sem hjer hefir ekki verið neitt minst á, sem jeg vildi vekja athygli háttv. deildarmanna á áður en málið verður afgreitt frá þessari umræðu. Það er að í þeim umr., sem orðnar eru um málið, hefir ekki komið fram eitt liðsyrði með núgildandi skattstiga. Það virðist svo, sem menn sjeu ákveðnir í að breyta honum, og þá í aðalatriðunum samkvæmt því, sem stj.frv. gerir ráð fyrir. Það hafa að vísu komið fram till., sem bera með sjer aðra stefnu, eins og till. þeirra háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) og háttv. 2. þm. Reykv. (JB), en af auðskildum ástæðum er engin þörf að ræða frekar um þær. Að vísu virðist hv. meiri hl. nefndarinnar helst á því, að einhverju þurfi að breyta í stj.frv., en þegar alt kemur til alls, fallast niðurstöður þeirra að lokum í faðma við það, og aðal meðmælin, sem tilfærð eru með brtt., eru þau, að þær sjeu nærri því eins góðar og frv. Það er þessi ástríða, sem er að gægjast hjer fram, sem Þjóðverjar kalla „Bessermachen“. Það er að finna hjá sjer knýjandi þörf til að gera umbætur á hverju sem er, þótt maður hafi ekkert betra fram að bera.

Jeg skal annars ekki fara út í það að telja upp gallana á till. nefndarinnar, en aðeins benda á þann höfuðgalla, að þær gera skattstigann miklu margbrotnari en þörf er á og auka útreikninga og aðra skrifstofuvinnu, (JAJ: Skrifstofumennirnir í skattstofunni kunna að reikna). Já, en þeir þurfa tíma til þess eins og aðrir. Skattanefndamennirnir hafa mikið starf með höndum fyrir litla borgun, og tel jeg ekki neina ástæðu til að bæta á það — að minsta kosti ekki núna, þegar þeir hafa ekki nema, vikutíma til að taka afstöðu til þeirra breytinga, sem nú verða gerðar. Að þetta geri aukinn starfsmannafjölda hjer í Reykjavík, er augljóst. Og er undarlegt að láta það fara saman með að skera niður sum þau embætti, sem mörgum er sárt um. (JakM: Til hvers á að auka manni í skattstofuna ?). Til þess að reikna og annast önnur skrifstofustörf, sem leiðir af hagsýni hv. meiri hl. nefndarinnar. (JakM: Þvættingur). Það mun sannast, að þetta reiknar sig ekki sjálft frekar en annað. Fyrir utan aukinn reikning leiðir þetta af sjer aukin brjefaskifti og annað umstang. Jeg skyldi alls ekki vera á móti þeim aukakostnaði, ef lögin yrðu rjettlátari með því móti. En jeg er mótfallinn þessum breytingum, úr því ekkert vinst við þær nema aukinn kostnaður. Allur ábatinn er aukin skriffinska, en af henni höfum við nóg fyrir. Jeg ræð því til, að við höfum þessi lög sem einföldust og eins fljót til vinnu og unt er.