13.04.1923
Neðri deild: 41. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

110. mál, jarðræktarlög

Jón Baldvinsson:

Jeg hafði áður kvatt mjer hljóðs, til að gera nokkrar smávægilegar athugasemdir um þetta mál. En það er nú komið frá nefnd, svo búast má við, að það fari fljótar yfir en ella, og það er af þeim ástæðum, að jeg tek til máls við 1. umr.

Jeg skal þá fyrst taka það fram, að mjer finst þetta merkilegt mál og vænlegt til gagns fyrir búnaðarframkvæmdir í landinu. En jeg verð þó að segja, að þótt mikils sje um það vert, þá er ekki ástæða til að vera að blanda í þessi lög ákvæðum, sem eiga að rjettu lagi að standa í bankalögum. Á jeg þar við ákvæðin um lánveitingar til landbúnaðar úr hinum fyrirhugaða ríkisveðbanka. Það lítur helst svo út, sem háttv. landbn. vilji með þessu tryggja landbúnaðinum þessa sjóði, sem leggja á í ríkisveðbankann. En það var ekki þetta, sem jeg vildi aðallega athuga við þetta frv. Það eru skilmálarnir um erfðafestulönd, sem mjer finst háttv. nefnd ætti að athuga betur. Ef frv. gengur í gegn eins og það er nú, yrðu mjög takmörkuð yfirráð bæjanna yfir landi sínu. Með þessu er ráðstöfunarvaldið tekið af bæjunum og lagt í hendur Búnaðarfjelaginu Gætu bæirnir þá t. d. ekki einu sinni trygt sínum eigin íbúum land til ábúðar, þótt þeir vildu. Geri jeg þessa athugasemd sjerstaklega vegna Reykjavíkurbæjar, sem hefir mjög mikið af löndum, sem líklegt er að látin verði á erfðafestu. En jeg býst við því, að menn kynnu illa þeim ákvæðum, sem frv. ráðgerir, ef þau verða samþykt.

Jeg hygg annars, að borgarstjóri Reykjavíkurkaupstaðar muni eftir áskorun bæjarstjórnarinnar hjer tala við hv. landbn. viðvíkjandi þessum ákvæðum um erfðafestulöndin. Jeg skal svo ekki fara inn á önnur ákvæði frv. að þessu sinni, en vænti, að hv. nefnd taki þessar athugasemdir mínar til athugunar.