13.04.1923
Neðri deild: 41. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

110. mál, jarðræktarlög

Eiríkur Einarsson:

Það gladdi mig að heyra góðar undirtektir í framsögu þessa máls. Jeg get tekið undir það, að þetta frv. muni verða til þess að styðja og styrkja landbúnað vorn. Skal jeg ekki fara frekari orðum um það, en get hins vegar ekki stilt mig um að geta þess, að mjer fanst bóla á annarskonar hugsun og miður hlýrri í garð landbúnaðarhjeraða, er fje hefir verið lagt í sölurnar fyrir, í ræðu háttv. frsm. (ÞórJ). Um leið og hann fór orðum um það, að þetta gæti orðið til gagns fyrir landið alt, en ekki aðeins einstaka hluta þess, fanst mjer eins og hann anda kalt til ákveðins landsfjórðungs. Sunnlendingafjórðungsins. Jeg skal játa það, að mikið fje hefir verið lagt til búnaðarframkvæmda í þessum landsfjórðungi og að árangurinn hefir ekki ávalt orðið sem skyldi, eða rjettara sagt, er enn mjög vandsjeður, því að búnaðarframkvæmdir sunnanlands, er mestu fje hefir verið eytt til, eru ýmist nýgerðar eða hálfgerðar tilraunaaðgerðir, í stórum stíl þó, sem ekki verða bornar saman við venjulegar jarðabætur. Hjer er að ræða um stærsta, grösugasta og gróðurvænlegasta hluta landsins, sem virðist hafa einna best skilyrði til slíkra framkvæmda. Það er sökum þess, að þing og stjórn hefir fest sjónir á þessum möguleikum og fje hefir verið veitt til að sjá, hvort ekki væri unt að fá bætta uppskeru úr slíkum jarðvegi. Í slíkum anda er stofnað til áveitufyrirtækjanna. Á Alþingi 1917 var fyrst veitt fje til Skeiðaáveitunnar. 26 þús. kr., eða 1/4 hluti áætlaðs kostnaðar. Geri jeg ráð fyrir, að háttv. frsm. (ÞórJ) hafi líka greitt atkvæði með þessum styrk, að minsta kosti stendur í þingtíðindum þess árs, að styrkurinn hafi verið samþ. í einu hljóði í þeirri deild. er hv. 2. þm. Húnv. (ÞórJ) átti þá sæti í. Jeg býst nú við, að þetta fje hefði þá ekki verið veitt, ef háttvirtir þingmenn hefðu álitið þetta vera nokkurt glæfrafyrirtæki. Hitt mun sanni nær, að þingið þá hafi litið svo á, að hjer væri um mikið velferðarmál að ræða fyrir landbúnaðinn. Eins og við vitum nú allir, þá hafa þessar vonir farið að nokkru leyti út um þúfur vegna skakkra áætlana, og hefir verkið orðið langtum dýrara en búist var við í upphafi. Verkfræðingarnir gengu þar fram hjá verulegu kostnaðaratriði, klöppinni. Er ómögulegt að skella þeirri skuld á bændurna, sem búa á þessu svæði. (ÞórJ: Hver hefir gert það?). Það gleður mig, ef það hefir ekki átt að vera meiningin hjá hv. frsm. (ÞórJ). En eitthvað af því tægi fanst mjer þó skína í gegn í ræðu hans, er hann kvartaði um það, að þeim mun meira fje, sem veitt væri þessum mönnum þarna eystra, þeim mun vera yrði ástandið. Þetta eru kuldaorð í garð bændanna.

Líkt er að segja um Miklavatnsmýraráveituna. Mistökin þar eru að kenna skorti á opinberu eftirliti, en alls ekki bændum. Það getur ekki með nokkru móti talist forsvaranlegt, er um svo dýr áveitufyrirtæki er að ræða, að ætla bændum að hafa yfirumsjón með slíku. Ef hlutaðeigandi menn hafa ekki afl eða áhuga eða þekkingu til að sjá um slíkt, þá ber því opinbera að taka yfirumsjónina í sínar hendur. Því slík mannvirki eru of dýr fyrir landið til þess að láta þau verða til ónýtis. Það er eins og jeg gat um hjer í fyrra, það vantar sameiginlega yfirstjórn í búnaðarmálunum. Þessar framkvæmdir bera glöggast vitni um það.

Þótt þetta frv. til jarðræktarlaga miði að því að hjálpa við búnaðinum um land alt, þá verður og hlýtur sú hjálp að fara að miklu leyti eftir skilyrðum hvers landshluta. Af hverju er veittur tilstyrkur til áveitu Þingbúa nyrðra? Af því menn halda, að hjer sje um framfarafyrirtæki að ræða. Býst jeg við, að svo muni standa á víða í Húnavatnssýslu. Aftur eru sumar aðrar sýslur landsins svo fátækar hvað jarðveginn snertir, að ekki er tiltækilegt að framkvæma slík fyrirtæki þar. Þessi styrkur hlýtur því ávalt að koma nokkuð misjafnt niður. Á öðrum tug aldarinnar, þegar fyrst komst hreyfing á þessi mál, þá benti þingið eðlilega fyrst á grasmestu sveitirnar hjer austanfjalls. Það ljet sjer ekki detta í hug að benda á Öræfin sem líklegasta tilraunastöð í þessum efnum. Og það var bara vegna þess, að jarðveg og landslagi er ekki svo háttað þar sem þörf er á, er auka skal grasræktina með ærnum kostnaði, svo sem stórum áveitufyrirtækjum. Þá ber þess að gæta, er um slík fyrirtæki er að ræða, að jarðrækt er yfirleitt mjög sein að borga sig, og ekki síst er henni er svo háttað sem hjer, verið að feta sig fram með tilraunum. Það er öðru máli að gegna þar en um fiskiveiðarnar, ef vel gengur. Hvað áveiturnar snertir, er líka á það að líta, að í rauninni er lítil sem engin reynsla fengin. Skeiðaáveitan er ekki fullgerð enn þá, og því ekki hægt að segja, hvern árangur hún ber. Um Miklavatnsmýraráveituna er það að segja, að hún mun varla verða mjög dýr og ætti að koma að góðum notum til jarðabóta. Er samkvæmt minni skoðun ekki annað að gera í þessu máli nú en að reyna að leið í það til farsællegra lykta.

Jeg hefi farið svo mörgum orðum um þetta vegna ræðu háttv. frsm. (ÞórJ). Þar gætti áreiðanlega misskilnings. Hann sagði meðal annars, að það liti svo út, sem afkoma manna væri ljelegust þar, sem landgæðin væru mest. Kastaði hann um leið fram þeirri spurningu, hvort orsökin til þessa myndi ekki vera sú, að menn væru hneigðastir til hóglífis þar sem skilyrðir, væru best til að lifa. Jeg lít svo á, að hjer sje um ástæðulausa og ósæmilega aðdróttun að ræða. Mjer er best kunnugt um það, að bændur þarna austur frá vinna baki brotnu. Fólksfæðin hefir aukist þar, og verða þeir sjálfir því að leggja mjög hart að sjer til að geta framfleytt búunum. Er leiðinlegt að heyra slíka rökleiðslu koma fram á háttv. Alþingi Það er svo augljóst, hve hæpið það er og ranglátt að segja um mann, sem á örðugt uppdráttar, að það hljóti endilega að vera af því, að hann sje slóði. Þær liggja líka svo í dagsbirtunni ástæðurnar til hins erfiða fjárhags eystra, á svipaðan hátt og á sjer stað um fjárþröng og basl víðar á landinu að ekki þarf orðum að því að eyða, að öðru er um að kenna en sællífi eða slóðaskap.