13.04.1923
Neðri deild: 41. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1314)

110. mál, jarðræktarlög

Jón Þorláksson:

Það er með hálfum hug að jeg tek þátt í umræðum um þetta mál, sem borið er fram af nefnd. Ástæður mínar fyrir þessu styðjast við þingreynslu, þó stutt sje, þá, að þegar nefnd ber fram frv. til stórra lagabálka, þá er ómögulegt að koma fram breytingum til umbóta, þó að gerðar sjeu af fullri vinsemd við málið sjálft. Þegar farið er að ræða umbætur á þessháttar frumvörpum, þá hleypur jafnan stífni í málið og hinir mörgu flutningsmenn þess skoða það sem andstöðu og óþarfa áleitni við sig, ef breytingar eru bornar fram Og þó að þær sjeu fullkomlega í anda málsins, verður niðurstaðan sú, að þær ná ekki fram að ganga.

Það er sjerstök ástæða til að minnast á þetta nú, vegna þess, að á mínu fyrsta þingi, þegar rætt var um ríkisveðbankalögin, reyndi jeg að koma að breytingum við þau, sem þá var vísað á bug, meira af kappi en forsjá. En nú hefir landbúnaðarnefndin gert tilraun til að setja ákvæði inn í þetta frv., sem fara í sömu átt og brtt. mínar við ríkisveðbankalögin, en ná þó ekki eins langt. Það, sem jeg á við, er aðgreining á þeirri tvenskonar starfsemi bankans, að veita almenn fasteignaveðslán og lán til jarðræktar Nú tekur landbúnaðarnefndin mikið af þessu upp í þetta ræktunarlagafrv., þar sem það á alls ekki heima. En þó er góðra gjalda vert, að hún hefir gert þetta. Ríkisveðbankinn er ekki kominn á laggirnar enn þá nje tekinn til starfa, og er því hægt að koma þessum ákvæðum að í lögunum um hann. En væri bankinn kominn á fót nú, þá hefði ekki verið hægt að hrófla við lögunum í þessu efni.

En samkvæmt reynslu minni, geri jeg mjer ekki von um, að það, sem jeg vil koma hjer að, verði tekið til greina.

Það, sem jeg vil fyrst minnast á, eru hin almennu ákvæði um stjórn og umsjón ræktunarmála. Það er í sjálfu sjer ekki mikil nýbreytni frá því, sem nú er, að það skuli vera lagt í hendur Búnaðarfjelags Íslands. En frv. segir ekki, hve langt á að ganga í þessu efni, og gerir ekki ljósa grein fyrir því, hvað sje ræktunarmál í þessu sambandi. Þess vegna vildi jeg biðja háttv. flm. um nokkrar upplýsingar því viðvíkjandi.

Jeg tók eftir því, að það andaði kalt í ræðu háttv. frsm. (ÞórJ) til hinna nýju vatnsvirkjafyrirtækja hjer austanfjalls. Hann gat þess, að ekki mætti ráðast í slík fyrirtæki, nema best mentuðu menn í þeim greinum hefðu umsjón með verkinu og undir handleiðslu Búnaðarfjelags Íslands. Nú vil jeg spyrja, hvort tilætlunin sje sú, að Búnaðarfjelagið stofni embætti handa verkfræðingi, með skrifstofuhaldi og fleiru, sem því til heyrir, sem væri fær um að standa fyrir öðrum eins mannvirkjum og hjer ræðir um. Sje það svo, skal jeg taka það fram, að hann mætti ekki verða ver settur en forstjórar þeir, sem ríkisstjórnin hefir sjer við hönd, svo sem vegamálastjóri og vitamálastjóri. Hann þarf að vera verkfræðingur, og það má ekki gera minni kröfur um hæfileika hans og reynslu heldur en gert er við val á forstjórum þeim, er jeg nefndi.

Eitt er það, að rækta gras og framleiða gróður úr jarðveginum, en annað er að undirbúa og veita forstöðu þessum stóru fyrirtækjum. Þar mega menn ekki gleyma, að til þess þarf, auk reynslu og þekkingar, fylstu verkfræðngsmentun, og veit jeg engan búfræðiskóla á Norðurlöndum, sem gæti lagi til þá mentun, sem til slíkra framkvæmda þarf.

Jeg vona, að háttv. frsm. (ÞórJ) hafi skilið spurningu mína, um hvort ætlast sje til að stofna slíkt embætti; þá væri ekkert við því að segja. Um eftirlit Búnaðarfjelagsins með þessum málum er það að segja, að jeg álít betra, vegna þess hvað störfin eru víðáttumikil og margbrotin, að sameina allar verkfræðingaskrifstofur undir yfirstjórn landsstjórnarinnar. Það er ekki ætlun mín að veikja traust Búnaðarfjelags Íslands. En af því að hv. frsm. (Þórj) mintist á Miklavatnsmýraáveituna, skal jeg geta þess, að hún var í fyrstu undirbúin af Búnaðarfjelagi Íslands. En þegar það fór í handaskolum, þá var fyrst leitað til verkfræðings, sem landið hafði í þjónustu sinni. Síðan var verkið umbætt og nokkru síðar ákveðið, að það yrði aftur sett undir umsjón Búnaðarfjelagsins, þar eð ætlast var til, að þetta yrði áveitutilraun. Nú veit jeg ekki til, að eftirlit Búnaðarfjelagsins með þessu mannvirki hafi orðið að neinu gagni, eða að nokkrar áveitutilraunir hafi verið gerðar þarna fram að þessum tíma. Jeg heyrði, að háttvirtur framsögumaður (ÞórJ) gat þess, að áveituskurðurinn væri fullur af möl og sandi, hvaðan sem hann hefir haft það. Þetta er ekki rjett. — Það getur ávalt komið fyrir, að sandur safnist í slíka skurði. Á síðasta vori var kominn ofurlítill sandur í aðfærsluskurðinn, og var skorað á bændur að sýna það manndómsmerki að moka burt sandinum; og þeir hlupu til eina dagstund í fyrra vor og hreinsuðu skurðinn, svo að vatnið kom að nokkurnveginn notum í fyrra sumar. Þetta ætti ekki að vera ofverk áveitufjelagsins; en eftirlitið með því er slælegt. Að öðru leyti þótti mjer háttv. frsm. (ÞórJ) ekki sjerlega sanngjarn, að því er snertir kostnað þessara áveitufyrirtækja, einkum Skeiðaáveitunnar. Þegar hún var framkvæmd, stóð dýrtíðin sem hæst. Það er ósköp hægt eftir á að koma með álasanir og ávítanir til þeirra, sem gerða kostnaðaráætlanir 1917. En hver er sá, sem þá gat sjeð fyrir dýrtíðina 1920? Við þessu er ekkert annað að gera en að taka því eins og öðrum óhöppum, sem menn leiddust út í í dýrtíðinni. Og í því ljósi verður að líta á þetta; hún á langsamlega mestan þátt í þessum mikla og óvænta kostnaði.

Þessu næst vil jeg minnast á ákvæði þessa frv. um jarðræktarlán. Jeg get ekki annað sagt en að það gleður mig, að hjer koma fram tillögur, sem fara alveg í sömu átt og þær, sem jeg hafði í huga og talaði um við manninn, sem undirbjó lögin um ríkisveðbankann. En þó er ekki gengið nógu hreint frá málefninu, enda er ekki fyllilega hægt að ná tilganginum, nema á þann hátt að breyta sjálfum ríkisveðbankalögunum. Gegn tillögu minni um skiftingu á fasteignaveðslánum og lánum til ræktunarfyrirtækja í tvo flokka var á þinginu 1921 flutt sú eina mótbára, að ef lánsstofnunin væri óskift og í einu lagi, mundi auðveldara að selja verðbrjef hennar á erlendum markaði. Þessi ástæða var ríkust í hugum manna 1921. En jeg efast um, að hún hafi eins mikið gildi nú. Jeg býst við, að þeir sjeu færri, sem telja nú ráðlegt að selja fasteignaverðbrjef erlendis. Flestir munu óska og álíta gætilegra að fá lán til ræktunarfyrirtækja innanlands. Jeg hygg því, að þessi mótbára sje nú fallin. Og vil jeg því skora á hæstv. stjórn og nefndina að athuga. hvort ekki muni betra að breyta bankalögunum, þannig að jarðræktarlánin sjeu í sjerstakri deild, og gangi ræktunarsjóðurinn og kirkjujarðasjóðurinn til hennar. Þessa tilhögun væri eðlilegra að setja í bankalögin sjálf heldur en að hafa ákvæði í þessum lögum um það efni.

Þá vildi jeg minnast á ákvæði frv. um erfðafestulönd, en þarf þó ekki mikið um þau að ræða, vegna þess, að háttv. samþm. minn (JB) hefir gert það rækilega. Við undirbúning þessara laga er gengið fram hjá reynslunni í þeim efnum hjer í Reykjavík, þar sem búið er að rækta erfðafestulönd í 1/2 öld og mikil reynsla fengin um það, með hvaða skilyrðum menn eiga að fá lönd til ræktunar og hvernig slíkum skilmálum sje haganlegast fyrir komið, þannig að einstaklingar fái hvöt til að taka löndin, en hins vegar að bærinn hafi þann rjett yfir þeim, sem nauðsyn krefur. Það hefir komið fyrir, að erfðafestuskilmálarnir hafa staðið í vegi fyrir auknum og haganlegum byggingum í bænum, eins og sjá má af því, hvernig hann er bygður. Nú eru fyrir fáum árum prentaðir nýir erfðafestuskilmálar, bygðir á reynslu bæjarins. Þeir eru miklu hagkvæmari en ákvæði frv., og ætti því að taka þá til greina. Jeg álít, að það geti ekki komið til nokkurra mála að neyða Reykjavík til að leggja þá niður og taka við ákvæðum frv. í stað þeirra, sem hún nú vill hafa. Vona jeg, að nefndin taki þetta til athugunar.

Um tilraunanýbýlin skal jeg segja það sama og frv. ber með sjer, því að nefndin vill ekki, að farið sje lengra en nú er komið í því atriði. Jeg er henni sammála um það.

Alt þetta tal um nýbýli, sem gengur fjöllunum hærra síðari árin, eru aðeins hugarórar. Og þarf ekki annað en líta á skilyrði smábænda undanfarin ár; þó að jarðir þeirra sjeu hver um sig stærri og ódýrari en þau lönd, sem hjer um ræðir, þá bjóða þau ábúendum ekki hæfileg lífsskilyrði, svo að þeir geti þrifist. nema þar, sem önnur atvinna er stunduð með. t. d. sjávarútvegur o. fl. Það er ekki til neins að hugsa sjer, að búskaparhættir sjeu svo breyttir, að fjölskylda geti þrifist á búskap á 10 hekturum af landi. Ræktun landsins og annar undirbúningur er svo dýr nú, einnig húsabyggingar og fleira, sem á þarf að halda. Og þar sem undirbúningur þessara landa hefir kostað svo mikið, og auk þess verður sjerstaklega dýrt húsnæði, getur ekki komið til mála, að búskapur beri sig á þeim. Það gleður mig, að háttv. nefnd lítur rjett á þetta mál. Þó að jeg hafi gert þessar athugasemdir við erfðafestuskilyrðin í frv., einkum í sambandi við Reykjavík, þá skal jeg geta þess, að auðveldast er að reisa nýbýli og reka þau fyrst og fremst þar sem hægast er að stunda sjávarútveg jafnframt. Nýbýli ættu einkum að vera í þorpum; þar á að hvetja menn til að byggja þau og búa. Erfðafestulögin ættu að vera til þess að gæta rjettinda almennings, og á hinn bóginn að hvetja einstaklingana til að taka lönd. Erfðafestuskilmálarnir hjer í Reykjavík fara í þessa átt. Það má ekki skilja orð mín svo, að jeg sje á móti nýbýlum, heldur vil jeg, að farið sje eftir þeirri reynslu, sem þegar er fengin um nýbýli og erfðafestulönd, og að teknir sjeu til greina þeir skilmálar, sem jeg hefi bent á.

Jeg ætlaði reyndar að minnast á fleira, en get látið það bíða þangað til síðar, að jeg fæ, ef til vill, tækifæri til þess.