13.04.1923
Neðri deild: 41. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1560 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

110. mál, jarðræktarlög

Jakob Möller:

Jeg bar fram tillögu mína af þeirri ástæðu, að í frv. er blandað saman tvenskonar málum. Frv. er samkvæmt efni sínu aðallega verkefni háttv. landbn., að því leyti, sem það er landbúnaðarmál, en einn kafli þess snertir verkefni þau, sem fjhn. er sjerstaklega falið að fjalla um. Tillaga mín er því bygð á fullum rökum. Hún mundi og ekki verða til þess að tefja fyrir málinu, því að jeg býst við, að hv. þm. muni viðurkenna, að deildin hefir fyrirliggjandi svo mikið verk að vinna, að ekkert sje að óttast. Að það hafi ekki sjerstaka þýðingu, að fjhn. fái í heild sinni að fjalla um málið, er mikill misskilningur, og gæti það varðað miklu fyrir málið. Jeg ætlast til, að fjhn. athugi, hvort lánakaflinn færi að nokkru leyti í bága við lögin um ríkisveðbanka. En það hefir alls ekki sömu þýðingu, hvaða skoðun einstakir nefndarmenn láta uppi eins og álit nefndarinnar í heild sinni. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg álíti eftir fljótlega athugun, að frv. brjóti í bág við ríkisveðbankalögin. Niðurstaðan verður að líkindum alveg gagnstæð. Þetta gæti því fremur orðið málinu til góðs, en að svo stöddu get jeg ekki lofað því fylgi, ef tillaga mín nær ekki að ganga fram.