27.04.1923
Neðri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

110. mál, jarðræktarlög

Magnús Jónsson:

Það er hressandi og gleðilegt að hafa þennan lagabálk til meðferðar. Það hefir atvikast svo, að mikill tími þingsins hefir gengið í karp og þrætur um lítilsverð mál, en lítið um stór og merkileg nýmæli, sem líkur eru til, að þinginu auðnist að leiða til lykta. En hjer er um stórmerkilegt mál að ræða. Frá fornu fari hefir það verið viðurkent, að landbúnaðurinn sje sá atvinnuvegur þjóðarinnar, sem telja mætti merkilegastan. Það er gamall málsháttur, að bóndi er bústólpi, en bú er landstólpi. En á síðustu árum hefir önnur atvinnugrein vaxið landbúnaðinum yfir höfuð og er orðin talsvert sterkari að fjármagni. Og því verður ekki neitað, að landbúskaparhættir vorir eru nú svo breyttir, að vjer þurfum að reka sjávarútgerð í stórum stíl, eða alt fer um koll. Ríkissjóður þarf nú svo mikið fje, að óhugsandi er, að landbúnaðurinn, í því formi, sem hann er nú í, geti annað því að fleyta þessu bákni. Þessir atvinnuvegir verða að lifa í sátt og samlyndi; annar bróðirinn má ekki vilja hinum illa. Þó er ekki laust við, að stundum hafi andað kalt frá landbúnaðinum til útgerðarinnar. En það er, eins og maður einn sagði við mig á dögunum, varasamt að drepa drógina, sem menn ætla að bjargast á til bæja. Það er best fyrir landbúnaðinn, að sjávarútvegurinn blómgist, og útgerðinni er hagur að því, að landbúnaðurinn standi sem traustustum fótum.

Jeg hygg, að allir verði að viðurkenna, að landbúnaðurinn er sterkasta stoðin, sem menningargrundvöllur og menningarberi. Þetta frv. virðist stefna í þá átt að hleypa nýju fjöri í ræktun landsins, og kennir þess, að menn vilja rífa hann upp úr gamla farinu og gera hann meira megnugan, svo að ekki þurfi um hann að segja eins og nú, að hann geti lítið borið og lítið megi á hann leggja. Það er ekki lítill „idealismi“, sem liggur að baki ýmsu í þessu frv., og enn frekar því frv., sem þetta frv. er samið upp úr, og má mikið vera, ef hann var ekki fullmikill á pörtum. Hjer kemur hið sama fram, sem jeg sá haldið fram í riti einu, er nýlega var útbýtt hjer á þingi, hve góður jarðvegurinn er hjer á landi. Er haft eftir fróðum mönnum, að hvergi sje betri jarðvegur fyr en suður við Nílárósa. En þá hlýtur eitthvað annað að koma til greina, svo sem lofthiti, því að jarðvegurinn hjer skili ekki eins miklu af sjer og í löndunum fyrir sunnan okkur. Tel jeg því rjett að fara í engu óðslega, heldur byrja skynsamlega, en síga svo á, ef koma mætti landbúnaðinum í betra horf. Jeg sje ekki betur en að frv. þetta þræði þann veg sæmilega. Það getur verið vafamál, og reynslan ein verður að skera úr því, hvort hið allmikla fjárframlag úr ríkissjóði, sem um getur í 7.–12. gr., verði til þess að lyfta landbúnaðinum, svo að hann geti skilað aftur öllu því fje. eins og menn gera sjer vonir um. En jeg tel langsamlega tilvinnandi að gera þessa tilraun.

Jeg skal svo ekki hafa lengri inngang, en víkja að brtt. þeim, sem jeg hefi leyft mjer að flytja. Þær eru smávægilegar og hagga í engu stefnu frv. Háttv. frsm. (ÞórJ) mintist á 1. brtt. og var henni hlyntur; þarf jeg því vonandi ekki að færa mikil rök fyrir henni. Hjer þótti eiga betur við, að í lögunum sjálfum væri tekið fram, hvernig stjórn Búnaðarfjelagsins skuli skipuð, meðan hún hefir þau fjárforræði og það vald, sem henni er ætlað með þessu frv. Það er vitanlegt, að þó að fjelagið hafi breytt samþyktum sínum í þessa átt, getur það breytt þeim aftur, og engin trygging er fyrir því, að þetta fyrirkomulag haldist, nema beinlínis sje ákveðið í lögunum sjálfum. Viðaukatill. nefndarinnar, á þskj. 423, hafði jeg satt að segja ekki tekið eftir fyr, en jeg býst ekki við, að hún hafi nein áhrif á tilgang brtt. minnar. II. og V. brtt. mín á þskj. 407 eiga saman. Jeg vildi fella niður úr 7. gr. að Búnaðarfjelagið skuli skera úr ágreiningi þeim, sem þar er gert ráð fyrir, að kunni að rísa, og bæta aftan við 13. gr., að með sama hætti skuli skorið úr öllum ágreiningi, sem verða kann um ákvæði 7.–12. gr. Munurinn á tillögum mínum og frv. er sá, hvort Búnaðarfjelag Íslands eða atvinnumálaráðherra skuli hafa úrskurðarvaldið. Mjer virðist hjer horfa svo við, sem Búnaðarfjelagið sje annar aðili málsins; annars vegar er sá, sem framkvæmir verkið, hin vegar á Búnaðarfjelagið að athuga það og meta, og rísi ágreiningur, er rjett, að þriðji aðilinn skeri úr, yfirstjórn atvinnumálanna. Þetta kæmi vonandi sjaldan fyrir, eins og hv. frsm. (ÞórJ) tók fram. Háttv. frsm. kvað óþarft að ónáða atvinnumálaráðherra um slíka smámuni; en það er einmitt tilgangur minn með þessu að hnippa í hann. Með frv. er sett svo mikið stjórnarbákn yfir þetta, að jeg óttast, að atvinnumálaráðuneytið kunni að leggja höfuðið á koddann og sofna yfir þessum málum, og er þá einmitt rjett að ýta við því, ef einhver ágreiningur kemur upp.

Háttv. frsm. (ÞórJ) hljóp yfir 2 brtt. mínar, nr. III. og IV. Nefndin hafði bætt inn í upphaflega frv. ákvæði um, að fyrstu dagsverkin hjá fátækum einyrkjum skuli metast jöfn 10 frá öðrum, þannig að þeir fái styrk fyrir alt, sem er umfram 5 dagsverk. Jeg tel ákvæðið um 10 dagsverk svo vægt, að ekki taki því að gera undantekningu, enda yrði talsverður munur með þessu móti á einyrkjum og öðrum. Orðalagið í niðurlagi greinarinnar er auk þess svo rúmt, að ef til vill mætti skilja það á þá leið, að jafnan skyldi meta 5 dagsverk hjá einyrkjum sem 10 hjá öðrum. Jeg kysi því heldur, að þessi málsgrein yrði feld niður og greininni væri ekki breytt frá því, sem hún var í upphafi.

Hin brtt. er við 12. gr. Þar er rætt um styrk til nýrra matjurtagarða, en jeg vil bæta því við, að fyrirtækið skuli vera skynsamlegt, að áliti Búnaðarfjelagsins; annars njóti það ekki styrks. Jeg hefi þá skoðun á garðrækt hjer á landi, að menn eigi að ýta undir bændur að rækta jarðepli til heimilisþarfa með heimafólki sínu, en ekki hvetja þá til að leggja svo mikla stund á þá ræktun, að þeir ætli sjer að keppa við erlenda vöru. Engin regla er undantekningarlaus, og ekki sú heldur, að best sje að framleiða sem flest í landinu sjálfu. Það er heppilegast að rækta það, sem best skilyrði eru til, en jeg er hræddur um, að menn kunni að flana út í jarðeplarækt í stórum stíl, og vil því, að Búnaðarfjelagið hafi þar altaf hönd í bagga með. Í frv. er ákveðið, hvað garðar megi vera minstir, til þess að þeir njóti styrks, og er það jafnvel hvöt fyrir menn til að leggja út í garðrækt í stórum stíl, en jeg tel ekki vert að eggja menn á það.

Þá er VI. brtt., um að 15. gr. falli niður. Í upphaflega frv. var gert ráð fyrir, að veittar yrðu 100000 kr. til kaupa og starfrækslu jarðræktarvjela; nefndin færði það niður í 50000 kr., en jeg legg til, að þessi ákvæði falli niður. Með þessu er það ekki tilgangur minn að berjast gegn því, að keyptar verði nýtísku vjelar, en jeg vil ekki, að nein upphæð sje fastákveðin, sem til þessa megi verja, hvorki 100000 kr. nje 50000 kr., meðan vjer höfum ekki fengið meiri reynslu í þessum efnum. Jeg vil, að Alþingi sje óbundið að þessu leyti. Ef reynslan leiðir í ljós, að hjer sje gott verksvið fyrir þúfnabana og aðrar nýtísku vjelar, hygg jeg, að aldrei mundi standa á því, að Alþingi veitti nægan styrk til að kaupa þær og starfrækja.

Háttv. 2. þm. Skagf. (JS) hefir fallið frá brtt. sinni, en jeg held, að jeg láti mína flakka og láti atkvgr. skera úr um hana.

Jeg var að hugsa um að gera brtt. við 28. gr., viðvíkjandi því, með hvaða hætti jarðabætur skuli ganga upp í landskuldir, en satt að segja treysti jeg mjer ekki til þess að finna þar þá leið, sem best væri, og hefi jeg því slept því með öllu. En mjer þykir vænt um, að háttv. landbn. hefir breytt þessu, og mun jeg greiða því atkv. mitt.