14.03.1923
Neðri deild: 20. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Við atkvæðagreiðslu um þetta mál við 2. umr. fór svo, að samþyktar voru allar till., sem miðuðu að því að lækka skattinn. Afleiðingin af þessu er sú, að með frv., eins og það er nú. er gengið lengra en nokkur úr nefndinni hafði hugsað sjer. Mun láta nærri, að eftir þessu minki skatturinn, miðað við 1921. um 400 –500 þús. kr. En þetta var ekki tilætlunin, hvorki hjá meiri nje minni hluta nefndarinnar, og þess vegna hefir meiri hl. búið til nýjan skattstiga, og er hann svipaður þeim, sem ofan á varð við 2. umræðu, en þó farið nokkuð beggja bil, þannig að meiri hlutinn heldur því enn fram, að sleppa ekki skatti af tekjum undir 1000 kr. En aðalágreiningurinn í nefndinni var um það. En þar sem nú er nokkurt tillit tekið til beggja, má ætla, að báðir nefndarhlutar geti nú orðið á eitt sáttir. Ef þessi nýi skattstigi er borinn saman við núgildandi skatt, mundi hann valda nokkurri hækkun í Reykjavík, um 30 þús. kr., en þar við athugast, að þá er ekki reiknaður með frádráttur á aukaútsvörum og barnafrádráttur. Yfirleitt geri jeg ráð fyrir, að skattur á landinu mundi lækka um alt að 100 þús. kr., þótt ekkert verði um það fullyrt og ómögulegt sje að reikna það út nákvæmlega.

Annars skal jeg ekki innleiða neinar kappræður um málið. Jeg skal aðeins geta þess um skattstigann, að þar er um að ræða lækkun á skattinum upp að 13 þús. kr., og hana mikla á lægstu tekjunum, en síðan litla lækkun upp undir 20 þús., og þar á eftir er töluverð hækkun, enda ber þar mest á frádrætti þeim, sem aukaútsvörin valda.