27.04.1923
Neðri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (1330)

110. mál, jarðræktarlög

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki fara að karpa um þessar brtt. mínar, enda er mjer engin þeirra kappsmál, nema helst 6. brtt., við 15. gr. Tel jeg miklu heppilegra, að ekkert sje ákveðið um, hvað miklu fje skuli varið til kaupa á jarðræktarvjelum, svo að hægt sje að haga sjer einungis eftir því, sem reynslan sýnir, hver nauðsyn og gagn er af þeim. Er það engan veginn tilgangur minn að þrengja þetta, heldur aðeins að koma í veg fyrir, að þetta ákvæði verði hreint pappírsgagn, en það verður það sennilega, ef það stendur óbreytt. Því að ef reynslan t. d. verður sú, að eitt og eitt ár þarf meira fje í þessu skyni, þá má búast við, að leitað verði fjárveitingar aukreitis.

Ef háttv. þingmenn kynnu heldur að aðhyllast till. háttv. 2. þm. Skagf. (JS), þá má alveg eins setja hana inn á eftir, þótt gr. verði feld burtu við þessa umr. Um það, hvort styrkurinn verði bundinn við 5 eða 10 dagsverk, skal jeg ekki deila, en mjer finst, að 10 dagsverk sje það lágmark, sem varla taki því að fara niður fyrir.

Háttv. þm. Ak. (MK) taldi 4. brtt. óþarfa, því að Búnaðarfjelagið hefði það vald eftir frvgr. sjálfri, sem brtt. mín vildi fá því. Þetta er ekki rjett. Er sagt í greininni, að styrkurinn skuli ekki verða greiddur fyr en garðurinn hefir gefið sæmilega uppskeru. En það getur altaf orðið álitamál, hvað telst sæmileg uppskera, og það gæti verið sæmileg uppskera til heimilisþarfa og gagnlegt bóndanum, þegar hann hefir unnið verkið með eigin starfskröftum heimilisins, þó að það væri stór skaði, ef rekið er með kostnaði og til þess að keppa við erlenda vöru. Brtt. mín mundi stuðla að því, að varlega yrði í þetta ráðist, og gæti forðað frá gönuhlaupum og óskynsamlegum tilkostnaði.