30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

110. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Það ætti að vera óþarfi að ræða þessa brtt.; jeg býst ekki við, að hún geti komið undir atkvæði, þar sem henni hefir ekki verið útbýtt. Jeg vil þó taka fram, að jeg þykist geta fullyrt, að nefndin muni ekki geta fylgt þessari brtt. Það eru til einyrkjar, sem hafa góðar ástæður og eru vel efnum búnir, og er langt á milli þeirra og fátækra einyrkja. En hverjir geta talist fátækir, er auðvitað ekki hægt að ákveða í lögum; það verður að vera komið undir áliti og dómi þeirra trúnaðarmanna Búnaðarfjelagsins, sem falið er að meta það. Allir hljóta að sjá, að það er fjarstæða að gefa öllum einyrkjum hlunnindi í þessu atriði. Sumir gera það beinlínis af praktiskum ástæðum að hafa ekki hjú, en þeir geta oft auðveldlega leigt menn til jarðræktarvinnu, og þá menn er engin ástæða til að verðlauna sjerstaklega.