05.05.1923
Efri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

110. mál, jarðræktarlög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg verð að halda því sama fram hjer í hv Ed., sem jeg gerði í hv. Nd., að frv. þetta væri gott og gagnlegt í öllum atriðum, nema um fyrirkomulag Búnaðarfjelagsins og samband þess við ríkisstjórnina og það var einmitt þetta atriði, ásamt því, að forseti Búnaðarfjelagsins fór til Noregs svo stjórnin gat ekki borið sig saman við hann, sem var ástæða til þess, að þetta frv. var ekki borið fram sem stjórnarfrv., sem best hefði átt við.

Búnaðarfjelagsstjórninni var eftir frv. gefið afarmikið og nær ótakmarkað vald, bæði um framkvæmdir, ráð á fje og eftirlit framkvæmda. Þetta þótti mjer gengið alt of langt. Eftir minni skoðun átti Búnaðarfjelagið, ef þetta fyrirkomulag kæmist á, að verða undirskrifstofa í stjórnarráðinu, eða sjerstök deild. Þetta tjáði jeg landbn. Nd., og fanst mjer hún vera nokkuð líkrar skoðunar, en hún kvaðst þó mundu láta sjer nægja að breyta þannig til um stjórn fjelagsins, að meiri hluti Búnaðarfjelagsstjórnarinnar skyldi vera skipaður af atvinnumálaráðherra. Þetta þótti mjer að vísu bót, og samkvæmt þessu hefir Búnaðarfjelagið breytt sjerlögum sínum á þá leið, að ráðherra skipi tvo menn í stjórn þess. eftir till. landbúnaðarnefnda Alþingis. — og sama ákvæði er nú komið inn í 2. gr. þessara laga. Það hefir nú áður verið talsvert um það þráttað, hverju þýðingu bæri að leggja í orðin „eftir tillögu“, hvort það þýði sama sem að leita tillagna, og gæti þá stjórnin úrskurðað eins og henni þykir best henta, ef hún aðeins hefir leitað álitsins, eða hún sje skyld að fara eftir tillögunum. Það er nú alveg víst, að landsstjórnin hefir iðulega skilið þessi orð þannig, að þau þýddu sama sem „að fengnum tillögum“, en jeg er ekki alveg viss um, að þennan skilning megi leggja í 2. gr., af því að í 15. gr. eru höfð orðin „að fengnum tillögum“. En sje það meiningin, að ráðherra sje skyldur til að fara eftir tillögum nefndanna og hafi ekkert annað að gera en skrifa nafnið sitt undir útnefningarskjalið, þá er það alveg á móti þeirri skoðun, sem kom fram í landbúnaðarnefnd Nd., en jeg hafði ekki tíma til að athuga breytinguna í þessa átt, sem mun hafa komið fram við 3. umr. í Nd. á síðasta augnabliki.

En þar sem þetta er mjög merkilegt mál, og á auk þess að endurskoðast á 5 ára fresti, þá er jeg ekki á móti því, að það gangi fram, þótt jeg hefði frekar kosið 2. gr. öðruvísi orðaða.