14.03.1923
Neðri deild: 20. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þórarinn Jónsson:

Jeg skal ekki blanda mjer í deilurnar milli meiri og minni hlutans. Jeg vil aðeins gera stutta grein fyrir afstöðu minni, áður en málið fer út úr deildinni, með því að jeg hefi hjer nokkra sjerstöðu. Jeg er sem sje á þeirri skoðun, að ekki eigi að breyta skattalögunum nú. Sú reynsla, sem fengin er á lögunum, er engin reynsla, og ber sjerstaklega tvent til þess. Í fyrstu það, að framkvæmd laganna hefir orðið misbrestasöm, sem stendur til bóta, og í öðru lagi það, að tími sá, sem framkvæmdin er gerð á, er óstöðugur. Jeg játa það, að fult samræmi sje ekki í framkvæmd laganna, hvorki innbyrðis í sveitum landsins nje í sveitum landsins gangvart kaupstöðunum. En það er bein ástæða til þess, og má segja mikil vissa, að þetta lagist bæði úti um land og í kaupstöðum. Og því til sönnunar vil jeg benda á, að þó að yfirskattanefndir sumra hjeraða landins hafi ekki gerbreytt eða lagfært eins og skyldi framtöl úr hlutaðeigandi hreppum til þess að færa þau í fult samræmi innbyrðis, þá hafa þær þó sent hverri undirskattanefnd athugasemdir, áminningar og leiðbeiningar, sem allar eiga að verða teknar til greina í framtölunum nú. Eins býst jeg við, að hafi t. d. skattstjórinn hjer í Reykjavík gengið fullhart að með skattframtalið í fyrra vetur, þá hljóti að koma nokkur breyting á það nú, þar sem yfirskattanefnd lækkaði skattinn um fullar 300000 kr. Og það má vænta þess, að áhrifin af þessari niðurfærslu komi nú fram á talsvert víðara sviði. — Hvorttveggja þetta bendir ótvírætt í þá átt, að skattframtalið nú verði betra og í meira samræmi. Sú ástæða, sem þannig hefir komið fram gegn lögunum, verður að teljast ótímabær.

Þá er önnur ástæðan, að tími sá, sem framtalið er framkvæmt á. sje óstöðugur og því órjettmætt að byggja á honum skattstigabreytingu. Því hefir verið haldið fram undir umræðum málsins, að skatturinn væri of hár á lágu tekjunum, en þess hefir aldrei verið minnst, að hann lagfærist sjálfkrafa af breyttu gangverði vinnu og fæðis. Og er nú þegar komin talsverð breyting á þetta frá í fyrra. Það er því alveg auðsætt, að eftir því, sem nú liggur fyrir, falla fjölda margir, lausafólk og vinnufólk, undan skatti, jafnframt því sem skatturinn á þeim, sem enn kynnu að borga hann, yrði ekki það lægri, að skattgreiðandann skifti neinu. Afleiðingin er því engin önnur en sú, að ríkissjóður tapar, og má hann síst við því nú. Um málið í heild sinni hefi jeg annars ekki annað að segja en það, að jeg, þrátt fyrir þessa sjerstöðu mína, greiddi við 2. umr. atkv. með till. meiri hl., af því að mjer þóttu þær nær sanni en till. minni hl., og mun jeg gera svo enn. En hvort sem þær falla eða verða samþyktar, greiði jeg atkvæði á móti frv. í heild.