21.04.1923
Neðri deild: 47. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

99. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. (Þorsteinn Jónsson):

Það er alment álitið, að skemtanir, eins og t. d. leiklist, sje ekki heppilegur tekjustofn til handa hinu opinbera. Ef skatt ætti að leggja t. d. á sjónleika til opinberra þarfa, þá mætti eins leggja skatt á skóla og aðrar mentastofnanir. Því er þetta alveg röng leið, nema aðeins í því formi sje, að efla listina sjálfa, eins og þetta frv. fer fram á.

Viðvíkjandi brtt. frá háttv. þm. Borgf. (PO), þá skal jeg geta þess, að við flm. höfum ákveðið að verða. með tillögu hans, svo að frv. verði þeim mun vissara að ná samþykki deildarinnar. Lítum við svo á, að þetta muni ekki miklu fyrir þjóðleikhúsið. Jeg hefi raunar ekki átt kost á því að kalla mentamálanefnd saman á fund, en hins vegar talað við nefndarmenn hvern í sínu lagi, og eru þeir ekki allir á sama máli um þetta. En mín skoðun er sú, að það skifti ekki svo miklu máli, við hvaða íbúatölu sje miðað, að vert sje að stofna málinu í hættu með því að vekja sundrung um það. Mun jeg því, eins og jeg hefi tekið fram, til samkomulags ganga inn á brtt.