23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

99. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi ekki skift mjer af þessu máli fyr, þó það fari allmjög í bága við hagsmuni Reykjavíkur. Jeg viðurkenni sem sje fyllilega þörfina á þjóðleikhúsi hjer, og það munir allir gera, sem komið hafa hjer í leikhúsið og vita, að það er einhver ljelegasti samkomustaður bæjarins. Jeg viðurkenni líka þá menningarhlið þessa máls, sem hjer hefir verið talað um. Þess vegna ljet jeg kyrt um málið, þó jeg sæi, að verið væri að svifta Reykjavík allverulegum tekjustofni, sem átti að nota í ákveðnum gagnlegum tilgangi. Hins vegar get jeg ekki setið hjá lengur, þegar jeg sje, hvaða stefnu er nú farið að taka við 3. umr. Jeg hjelt sem sje í upphafi, að ætlast væri til þess, að þessi lög ættu að ganga jafnt yfir alt landið og öll hjeruð ættu jafnt að leggja sinn skerf til þess að koma upp þessu leikhúsi. En nú er þvert á móti farið fram á það, að undanþiggja skattinum mikinn hluta landsins, svo að hann kæmi í reyndinni aðallega niður á Reykjavík einni, og henni einni væri því ætlað að koma upp þessu leikhúsi, en aðrir ætli að skerast úr leik. Nú er það vitanlegt, að þær tekjur, sem Reykjavík missir á þennan hátt, verður að vinna upp á einhvern annan hátt, með auknum álögum á bæjarbúa, ef á annað borð á að vera unt að framkvæma þau fyrirtæki, sem til var stofnað. Jeg vil t. d. benda á það, að fyrir skemtanaskatt fyrsta ársins, um 30 þús. kr., var komið upp verkamannahúsi hjer við höfnina og að ákveðið hefir verið að nota þennan tekjustofn framvegis til ýmsra slíkra fyrirtækja, svo sem til bygginga barnahælis og gamalmennahælis. Allir menn viðurkenna, að þetta sjeu góð og nauðsynleg fyrirtæki og að skemtanaskattinum væri vel varið til þess að koma þeim upp. Og úr því að svo er, að Reykjavíkurskattinum er ekki ætlað það, að vera aðeins einn liður í því, sem landið alt leggur af mörkum til þessa leikhúss, en sumir ætla að skerast úr leik, virðist mjer sanngjarnast, að eins og þeir fá að ráðstafa sínum skatti sjálfir, fái Reykjavík það líka. Það má að vísu vera svo, að hjer í þinginu sje flokkur, sem ekki sjái eftir því að láta Reykjavík blæða einni fyrir þetta og þykist hafa himin höndum tekið, þar sem ríkissjóður þurfi ekki annað af mörkum að leggja en lóðina. En mjer virðist samt stefnt hjer alveg rangt, eins og málið er nú komið, ef brtt. verða samþyktar. Jeg get því ekki greitt þeim atkvæði mitt, eða frv. svo breyttu, hvað sem kann að verða, ef þær falla.

Hefir nú verið lögð fram áskorun frá bæjarstjórn Reykjavíkur, þess efnis, að láta heimildarlögin standa óhögguð.

Get jeg vel skilið, að bæjarstjórnin óski þess ekki, að bærinn verði sviftur stórum tekjustofni, sem hann hefir haft ráð yfir, einkanlega þegar þess er gætt, að allmörgum af kauptúnum landsins er ekki ætlað að leggja neitt af mörkum.