14.03.1923
Neðri deild: 20. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Þorleifur Guðmundsson):

Háttv. þm. Húnv. (Þór.J.) talaði mjög skynsamlega um þetta mál. Jeg er honum samþykkur í því, að reynslutími þessara laga er helst til lítill til þess að hægt sje að dæma um það, hvernig þau eiga við í framtíðinni. En á það ber að líta, að fram voru komnar svo miklar kvartanir um, að galdþol manna hrykki ekki til að greiða þessa háu skatta, að ekki var annað fært en að taka tillit til þeirra. Hins vegar er það ekki svo ýkjamikill munur, sem á verður, þótt aukaútsvörin sjeu dregin frá.

Þá ætla jeg að víkja nokkrum orðum að háttv. 1. þm. Reykv. (JakM). Hann heldur enn þá dauðahaldi í till. meiri hl. nefndarinnar, og er honum það nokkur vorkunn. Hann sagði, að ef frv. eins og það er nú yrði samþykt, þá væri mjer það vitanlegt, að það þyrfti að ná tekjunum inn á annan hátt, og þá væri ekki annar vegur en tollaleiðin, og gat þess um leið, að hann vissi til þess, að jeg væri á leiðinni með frv., sem færi í þá átt. Taldi hann, að jeg því ynni á móti stefnu minni, þar sem jeg vildi draga úr byrðinni hjá þeim, sem minst gjaldþol hefðu. Jeg játa að vísu, að jeg mun fylgjandi till., sem fara í þá átt að tolla eingöngu óþarfar vörur og þær vörur, sem hægt er að veita sjer hjer í landinu, og tel jeg það fullkomlega rjetta stefnu og í fullu samræmi við það, sem jeg hefi haldið fram áður.

Hvað snertir þennan 1000 kr. frádrátt, þá er það útrætt mál, og því óþarft að fara að lengja umr. með því.

Yfirleitt verð jeg að líta svo á, að frv. sje betra eins og það er nú heldur en með þeim breytingum, sem háttv. meiri hl. hefir stungið upp á. En í sambandi við þetta vil jeg benda hv. deildarmönnum á, og þá sjerstaklega sparnaðarmönnum eins og hv. 1. þm. Skagf. (MG), að það er engu síður eyðsla falin í því að vera að koma með brtt., sem eru lítilsvirði og breyta að engu leyti efni frumvarpanna, en geta orðið til þess að lengja umræður í 3 og 4 daga, þar sem aðeins er barist um smávægileg aukaatriði eða keisarans skegg eingöngu, til þess að skemta áheyrendunum á pöllunum og í hliðarherbergjunum. Að láta þetta ógert er engu minni sparnaður, kanske miklu meiri heldur en felst í ýmsum þeim sparnaðartill., sem bornar eru fram í frumvarpsformi, en aldrei verða samþyktar.