23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

99. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jón Auðunn Jónsson:

Það væri ekkert á móti því að samþykkja þetta frv., ef bæjar- og sveitarfjelögin þyrftu ekki skemtanaskattsins við til eigin þarfa.

Allir verða að viðurkenna, að bæjar- og sveitarfjelög þurfa þessara tekna við, og lög um skemtanaskatt voru búin til í því skyni að afla þeim tekna. Eigi að fara að hringla í þeim aftur, þá er Alþingi komið inn á skakka braut. Meðan sjúkrahús vantar víðast hvar, álít jeg að leikhús verði að bíða. Jeg hefi ekki spurst fyrir um þetta hjá bæjarstjórn Ísafjarðar, en jeg hygg, að þar muni eiga að nota skattinn til að styrkja fátækt fólk, sem þarf spítalavistar með. Jeg trúi því ekki, að frv. þetta nái samþykki þingsins, og þó svo færi, mega menn vita, að meiri kostnaður mun koma til en húsbyggingin.

Erlendis eru þjóðleikhús einn hinn þyngsti baggi á ríkissjóðunum, og eru menn viða í vandræðum með að finna þær miljónir, sem þau þurfa árlega. Mjer finst eðlilegt, að Borgfirðingar vilji losna við að greiða þennan skatt, því menn hafa nú nóg að gera með fje sitt á þessum tímum.

Það væri nærri því óhæfa að kippa þessum tekjustofni af bæjar- og sveitarfjelögunum á sama tíma og verið er að leita eftir föstum tekjustofnum til að draga úr þeim óhemjufjárhagsvandræðum, sem flest þeirra eiga við að stríða.