23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

99. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Pjetur Ottesen:

Það er ekkert undarlegt, þó að Reykvíkingar kveinki sjer við að missa af þessum tekjum, sem frv. sviftir þá; sjerstaklega þó, þegar tilgangurinn hefir verið að verja þessu fje til bráðnauðsynlegra mannúðarfyrirtækja, eins og háttv. 2. þm. Reykv. (JB) hefir þegar upplýst. Það sýnir og, hversu varhugaverð þessi breyting er í raun og veru, þegar Reykjavíkurbúar, sem fyrst og fremst munu njóta þessa leikhúss, eru þessu frv. mótfallnir. Af þessu getum við nokkuð sjeð, hvernig á þetta mál muni verða litið á þeim stöðum úti um land, sem sviftir væru þessum tekjustofni og ekki fengju annað í staðinn en eins og þar stendur: reykinn af rjettunum.

Þegar nú þess er gætt, hve mikill hluti manna úr öðrum landshlutum dvelur hjer um lengri og skemri tíma, og leggur þannig af mörkum mikið fje í skemtanaskatti, og er það framlag einmitt í rjettu hlutfalli við not og þýðingu þessa þjóðleikhúss fyrir aðra en Reykjavíkurbúa, þá sjest það ljóst, hversu ástæðulaust og órjettimætt það er að vera að seilast eftir skemtanaskatti þeim, sem til kann að falla á öðrum stöðum.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) hefir leiðrjett þann leiða misskilning háttv. 2. þm. Reykv. (JB), að samkvæmt frv. ætti þetta að verða almennur skattur, sem ætti að ná til allra hreppsfjelaga landsins. Það var ekki hægt að skilja háttv. 2. þm. Reykv. (JB) öðruvísi. Mentamálanefndin gekk þó ekki lengra í sínum tillögum en það, að skatturinn næði ekki nema til þeirra kauptúna eða kaupstaða, sem hefðu 1000 íbúa. Þeir, sem hefðu færri íbúa, slyppu við hann. Með þessu — þó ekki væri lengra farið — var of langt gengið, eins og jeg hefi hjer áður fært rök að, og flm. hafa fallist á og mentamálanefnd sömuleiðis.

Þó að því sje haldið fram, að rjettmætt sje og í sjálfu sjer eðlilegast að nota skemtanaskattinn til eflingar leiklistinni í landinu, þá getur verið, að þetta sje rjett, hvað snertir skatt af leiksýningum, að þá sje eðlilegra að verja slíkum skatti til þess en venjulegra útgjalda hrepps- eða bæjarfjelaganna, en þá held jeg því hiklaust fram, að skattur, sem fenginn er af dansskemtunum og öðrum skemtunum á borð við það, er að minsta kosti ekki óeðlilegri eða órjettmætara að nota hann til almennings þarfa en til dæmis að taka skatt af hverjum bita og sopa, sem maður lætur ofan í sig, og efni í hverja spjör utan á kroppinn á sjer.

Háttv. frsm. (ÞorstJ) kvaðst vera í vafa um, hvort hann ætti að ganga inn á mína brtt. á þskj 415. En jeg vil benda á, að sú brtt. stendur í svo nánu sambandi við hina brtt. við 1. gr., að það sama hlýtur að ganga yfir þær báðar.

Og að lokum vil jeg benda á, hversu órjettmæt sú hugsun er, sem fram kom hjá háttv. þm. Dala. (BJ), að rjettast væri að láta öll hreppsfjelög, sem hefðu 500 íbúa og fleiri, gjalda skemtanaskatt til þjóðleikhússins, og nægir mjer í því efni að benda til þess, sem jeg hefi áður um það sagt. Og því ástæðulausara væri þetta auðvitað, ef það er nú svo, sem háttv. þm. Dala. (BJ) heldur fram að hljóti að vera, að Reykjavíkurbær eigi nú fleiri miljónir króna í sparisjóðsbók.