23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

99. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jakob Möller:

Áður en til atkvæða verður gengið, verð jeg að vekja athygli háttv. þingdm. á því, að mótmæli þau, sem fram eru komin frá bæjarstjórn, eru ekkert annað en málamyndamótmæli. Hafa þau komið fram nú á 11. stundu, sökum þess, að bæjarstjórn hefir fundist, að hún gæti ekki látið málið fara fram hjá sjer alveg þegjandi. Ef nokkur alvara fylgdi, hefðu mótmælin vafalaust komið fyr fram og þeim verið fylgt fastara. Annars skal jeg taka það fram viðvíkjandi barnaheimilinu, að það getur alls ekki verið rjett hjá hv. 2. þm. Reykv. (JB), að tilgangurinn sje að nota slíkt hæli bæði sem hæli fyrir munaðarlaus börn og sem sumarheimili fyrir börn Reykvíkinga. Það verður eingöngu notað fyrir munaðarlaus börn. En jeg staðhæfi, að munaðarlausum börnum sje betra að fá vist á góðum heimilum heldur en á slíku hæli. Hefi jeg heldur ekki heyrt þess getið, að nokkur vandkvæði sjeu á því að koma slíkum börnum fyrir á góðum stöðum, svo þess vegna er engin ástæða til þess að fara að koma upp barnaheimilinu. En yrði því komið upp, þá geri jeg ráð fyrir því, að sú yrði reynslan af því, að eftirsókn yrði ekki mikil eftir því að koma þangað börnum til sumardvalar, þó að rúm leyfði.

Til árjettingar skal jeg enn fremur vekja eftirtekt á þeim orðum í ræðu hv. þm. Ísaf. (JAJ), að Ísafjörður sje ekki enn farinn að ráðstafa þessum tekjum, heldur gangi þær beint í bæjarsjóð. En þessi skattur á engan rjett á sjer til þess að vera almenn tekjulind bæjarsjóðanna. Á þeim stöðum, þar sem miklar tekjur eru af skemtunum, svo sem þar, sem kvikmyndahús eru, má ná fullum skatti af þeim með öðru móti, nefnilega aukaútsvari. Og vil jeg benda háttv. þm. Borgf. (PO) á það, að venjulega eiga þorpin sjálf húsin, sem skemtanirnar eru haldnar í, og geta tekið þetta gjald með húsaleigunni.

Ætla jeg svo að lokum að minna háttv. þdm. á, hve góðar undirtektir þetta frv. fjekk hjer í deildinni í upphafi, og vona jeg, að þeir fari ekki að bregðast því nú. Og jeg ætla að biðja þá að gera sjer ljóst, hvaða verk þeir eru að vinna, ef þeir fella þetta frv. Þeir eru þá að kveða upp dauðadóm yfir íslenskri leiklist og e fremja menningarmorð.