14.03.1923
Neðri deild: 20. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg tók það fram í fyrri ræðu minni, að jeg skyldi ekki gefa tilefni til kappræðna um málið við þessa umr. Og jeg skal reyna að halda þau orð mín, þótt hv. frsm. minni hl. (ÞorlG) hafi gefið fult tilefni til að svo yrði. Hann fór nokkuð hörðum orðum um mælgi meiri hl. nefndarinnar í þessu máli. Slík áminning lætur hálfundarlega í eyrum, er hún kemur frá háttv. frsm. minni hl., sem allir vita, að ávalt leggur sinn fulla skerf til þess þarfaverks hjer í deildinni, sem þras nefnist.

Háttv. þm. heldur því fram, að frv. sje betra nú en það yrði, ef till. meiri hl. yrði samþykt. Það er auðsætt, að háttv. þm. lítur þar aðeins á þá hliðina sem snýr að gjaldendunum. Og jeg skal játa, að það mælist venjulega vel fyrir að líta svo á slík mál. En hvað sem öllum vinsældum líður, þá legg jeg það til, að ríkissjóðnum sje ekki heldur gleymt. Það er hjer um að ræða hálfa miljón króna, sem hann tapar, ef frv. er samþykt svo sem það er nú. Einhversstaðar verður að ná því fje upp, og jeg bið háttv. frsm. minni hl. (ÞorlG) að minnast þess, að það koma bráðum til umræðu hjer í deildinni frv., sem fjalla um svipuð mál, og ekki er þá ólíklegt, að atkv. sumra kunni að falla eftir því, hvernig þeim finst áður í haginn búið fyrir ríkissjóðinn.

Háttv. frsm. minni hl. talaði um það, að þjóðin myndi ekki taka í mál skattahækkun. Það er merkilegt, að háttv. þm. skuli farast svo orð og tala um skattahækkun, þar sem ekki er um hana að ræða, heldur skattalækkun, og hana allverulega.

Að lokum ljet hv. frsm. minni hl. þá von sína í ljós, að málið yrði lagað í hv. Ed. Af þessu er auðsætt, að hann telur frv. þurfa lagfæringar við, og það sem skilur okkur er það, að jeg vil láta lagfæra hjer í hv. deild, en hann í hv. Ed., því mjer er það ljóst, að ef farið yrði að hrekja málið milli deildanna, þá væri þess lítil von, að það yrði afgr. nógu snemma til að verða til nota þetta árið — og væri þá til lítils kvörninni snúið.