14.03.1923
Neðri deild: 20. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þórarinn Jónsson:

Háttv frsm. minni hl. (ÞorlG) gaf það í skyn, að jeg hefði gleymt að líta á gjaldþol manna og taka tillit til þess. Jeg verð þá að segja það, að jeg hefi ekki orðið var við þessar tíðu kvartanir, sem háttv. þm. var að tala um, og jeg er alls ekki viss um, þótt skatturinn yrði lækkaður á öllum þeim mönnum hjer í Reykjavík, sem ekki hafa greitt hann, að hann gyldist að heldur. Auk þess eru það helst miðlungsgjaldendur, sem ekki hafa greitt skattinn, en á þeim lækkar skatturinn einmitt lítið.

Yfirleitt munar hvern gjaldanda ekkert um það, hvort skatturinn er 2–4 krónum hærri eða lægri, og meiru munar ekki á lægstu tekjunum.

Annars virðist mjer það sýnilegt, að málið geti ekki komist svo snemma úr þinginu, að hægt verði að beita þessum lögum nú. Þvert á móti bendir alt til hins gagnstæða og að þýðingarlaust sje að koma með þessar breytingar nú. Tel jeg þær algerlega gerðar út í bláinn og fyrirsjáanlegt, að breyta yrði ýmsu fleira þegar á næsta þingi. Er því hyggilegast að láta allar breytingar eiga sig nú og reyna þennan skattstiga, sem nú gildir, eitt ár enn. Enda væri líka mögulegt að afgreiða breytingarnar svo snemma á næsta þingi, að til framkvæmda gæti komið þá, og kemur þá í sama stað niður, ef ekki næst sá árangur nú, sem stofnað er til.