14.03.1923
Neðri deild: 20. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller:

Mjer fanst það hálfundarleg fullyrðing hjá hv. 2. þm. Húnv. (ÞórJ), að breytingar þær, sem nú er í ráði, að gerðar verði á skattalögunum, sjeu bara gerðar út í loftið. Þetta er þeim mun furðulegra, sem margbúið er að sýna fram á það með tölum, á hvern hátt breytingarnar verða og hver er nauðsyn þeirra. Það er yfirleitt dálítið kynlegt, að nokkur, sem fylgst hefir með þeim umræðum, skuli leyfa sjer slík ummæli. Jeg skal játa, að ekki verði sagt með neinni nákvæmni, hve mikill skattur náist inn á næsta ári. En sennilegast er þó, að það muni ekki ýkjamiklu frá því, sem síðast var. Því þótt laun manna hafi yfirleitt hækkað, þá er útlit fyrir, að atvinnuvegirnir ætli ganga skár, og ætli þetta tvent þá að vega salt.

Jeg skal ekki deila lengi við háttv. frsm. minni hl. ( ÞorlG) nje stugga við rökum hans, heldur lofa þeim að stangast í neyð. hann sagði, að enn þá þyrfti að lækka skattinn og liggur meiri hl. þar stöðugt á hálsi. Ef háttv. þm. á við skattinn á háu tekjunum, þá er hann kominn í beina mótsögn við fyrri afstöðu sína. Eigi hann hins vegar við lágu tekjurnar, þá vil jeg benda á, að sýnt hefir verið með tölum, að þar nemi lækkunin 25%, og er tæplega hægt að neita, að það sje þó dálítil lækkun. Að minsta kosti mun hennar verða vart í ríkissjóðnum.

Þá sagði háttv. sami þm. og ljet sjer hvergi bregða, að 1000 króna frá (þátturinn)kæmi málinu ekki við. Það var þó undarlegt, þar sem hann var (vantar orð) ástæðan til þess, að þessar brtt. komu fram. Háttv. þm. virðist hafa alveg sjerstæða skoðun á orsakasambandinu. Skal jeg ekki lasta það, en aðeins spá því, að einhverjum þyki sá frádráttur koma málinu við, þegar farið verður að greiða skattana í ríkissjóðinn.

Það, sem aðallega vakir fyrir meiri hl. nefndarinnar, er í fám orðum þetta, að gera skattana sanngjarnari almennt en þeir reyndust á síðasta ári. Ef þetta hefst ekki fram og till. hans verða feldar, þá tel jeg líklegast, að frv. fari sömu leiðina. Og hvað verður þá um allar kröfur háttv. frsm. minni hl. (ÞorlG) um að lækka skattinn ?!