05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1639 í B-deild Alþingistíðinda. (1417)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Forsætisráðherra (SE):

Jeg þakka hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) fyrir að hafa flutt þetta mál fyrir stjórnina. Jeg vil um leið taka það fram, að jeg skoða þetta hvorki sem stuðning nje ekki stuðning við stjórnina, að hv. þm. (JÞ) hefir orðið við þessum tilmælum hennar. Ástæðan er aðeins sú, að hann hefir átt samleið við hana í þessu máli. Og óneitanlega gengi það nokkuð langt, ef andstæðingar stjórnarinnar ættu ekki að mega fylgja fram sínum eigin áhugamálum, einungis ef svo stæði á, að stjórnin fylgdi þeim. Jeg er sömuleiðis þakklátur háttv. fjárhagsnefnd fyrir það, hvernig hún hefir tekið í málið, og skal jeg taka það fram, að jeg felst á allar brtt. hennar. Þó þykir mjer launin helst til lág.

Í tilefni af ýmsum getgátum um, að ákveðnum manni hafi verið ætlað þetta starf, lýsi jeg því nú yfir, að jeg hefi ekki haft neinn sjerstakan mann í huga, enda heyrir sú veiting undir atvrh., en ekki mig. Endurtek jeg svo af nýju þakklæti mitt til háttv. flm. (JÞ) og fjárhagsnefndar.