05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Stefán Stefánsson:

Af hinu innilega þakklæti hæstv. forsrh. (SE) til háttv. flm. og fjárhagsnefndar finst mjer mega ráða það, að honum sje þetta mikið áhugamál. En hvernig stendur á því, að honum er þetta svo mikið áhugamál? Því verður líklega dálítið örðugt að svara. Jeg veit satt að segja ekki til þess, að sparisjóðirnir hafi nú neina sjerstaklega vaxandi þörf á endurskoðun. En væri svo, þá býst jeg við, að hæstv. stjórn væri í lófa lagið að sjá um, að endurskoðunin, sem nú er, yrði þá gerð enn tryggilegri. Að vísu mun hæstv. stjórn ekki hafa beint eftirlit með sparisjóðum úti um land, en á hverjum stað eru valdir þeir færustu menn til þeirra hluta, sem kostur er og sem undantekningarlítið hefir reynst óhætt að reiða sig á. Eða hvaða sparisjóðir eru í verulegri óreiðu? Aðeins mun eitthvað í þá átt hafa heyrst um einn einasta sparisjóð. En ef þess eina sparisjóðs vegna á að stofna embætti upp á 12 þúsund króna föst laun, auk dýrtíðaruppbótar, væntanlegs skrifstofufjár og svo ferðakostnaðar, embætti, sem að líkindum myndi kosta landið árlega 40–50 þúsund kr., þá verður naumast annað sagt en að það verði ærið dýr sparisjóður fyrir alla heildina. Maður skyldi þó ætla, að hæstv. stjórn hafi nú samið þá reglugerð um endurskoðun sparisjóða, sem gert er ráð fyrir í gildandi lögum frá 1915. En mjer er ekki kunnugt um, að þessi reglugerð sje komin út; í það minsta hefir hún ekki verið send öllum sparisjóðum; það eitt er víst. Og hafi nú hæstv. stjórn vanrækt að framfylgja þessu sjálfsagða ákvæði í sparisjóðslögunum, þá fer hann að verða dálítið einkennilegur þessi áhugi hennar á því að stofna þetta dýra embætti í því skyni að sjá sparisjóðunum borgið. Nú er því svo varið, að hagstofan hefir sent út til allra sparisjóða á landinu leiðbeiningar eða eyðublöð fyrir reikningum þeirra, sem er mjög glögt og gott að fara eftir og ljettir mjög endurskoðunarstarfið. En nú vil jeg spyrja, hvað býst hæstv. stjórn við, að hann dvelji lengi á hverjum stað við endurskoðunina þessi nýi eftirlitsmaður? Þar sem nú allir þessir sparisjóðir eru aðeins lánsstofnanir, sje jeg ekki, að sje mikil þörf þessa „kritiska“ endurskoðara eða að hann geti gert neitt sjerstakt gagn. Álít jeg þá endurskoðun, sem til þessa tíma hefir átt sjer stað, fullsæmilega. Ef sparisjóðirnir hefðu „spekúlerað“ með fje sitt, væri nokkuð öðru máli að gegna; þá væri sennilega ástæða til að skipa þennan eftirlitsmann, til þess að koma í veg fyrir viðsjála eða varhugaverða meðferð á því fje, sem sparisjóðunum er trúað fyrir. En þetta veit jeg alls ekki til, að eigi sjer stað, og þar af leiðir, að jeg sje enga nauðsyn á þessu afardýra embætti. Þess vegna álít jeg, að ef aðeins er um venjulega töluendurskoðun að ræða, þá sje hún nægilega trygg í höndum þeirra, sem nú hafa hana og eru nákunnugir öllu því, er að tryggilegri endurskoðun lýtur. Eða hver vill trúa því, að ókunnur maður af öðru landshorni sje betur fær um að kynna sjer tryggingar sjóðanna en innanhjeraðsmenn, sem jafnan eru til þess valdir og kynna sjer að sjálfsögðu einmitt þetta atriði vendilega? Jeg hefi í það minsta enga trú á því.