05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Lárus Helgason:

Þegar jeg las þetta frv., bjóst jeg við, að flestir gætu orðið með því, sjerstaklega af því að eftirlitið með bönkunum er talið að vera ófullnægjandi — í það minsta af nokkrum hluta landsmanna. Þá er eigi síður þörf á, að eftirlit með sparisjóðunum í landinu yrði betra hjer eftir en hingað til. Betra skipulag ætti að komast á starfsemi bankanna og sparisjóðanna, og meira samræmi, og kæmi auk þess í veg fyrir mikið af þeirri tortrygni, sem hingað til hefir ríkt í garð peningastofnana landsins. Mjer finst þó einstaka atriði athugavert viðvíkjandi kostnaðinum við þetta eftirlit, en því ætti að vera auðvelt að breyta í frv. Jeg álít t. d. ekki rjett, að sparisjóðirnir taki á sig allan ferðakostnað eftirlitsmannsins. Bankarnir ættu að bera hann líka. En þó tel jeg þetta frv. svo nauðsynlegt, að jeg tel sjálfsagt, að það nái nú að verða að lögum, og greiði því með ánægju mitt atkvæði.