05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (1429)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Forsætisráðherra (SE):

Það er misskilningur hjá háttv. 1. þm. Eyf. (StSt), að jeg ætlist til, að eftirlitið með hverjum sparisjóði fari fram á einum degi. Hitt sagði jeg, að þegar þessi maður væri kominn vel inn í sitt starf og kunnug orðinn víðs vegar á landinu, þá þyrfti það ekki að taka langan tíma. Hins óska jeg auðvitað, að sparisjóðirnir reynist vera í sem bestu lagi. En það er mikið fje, sem landsmenn eiga í þeim, og því áríðandi, að stjórn þeirra fari ekki í ólestri. Það má vel vera, að engin þörf sje á auknu eftirliti í Eyjafirði. Auðvitað þekki jeg aðeins örfáa sparisjóði á landinu og get ekkert sagt af eigin reynd um þá.

Hvað viðvíkur því, hvort reglunum um sparisjóði frá 1915 hafi verið fylgt, þá skal jeg viðurkenna, að mjer er ókunnugt um það, enda heyrir það mál ekki undir mitt embætti. En steinhissa er jeg á því, eftir allar þær umræður, sem orðið hafa hjer á þinginu, að nú, þegar fara á að setja peningastofnanir landsins undir verulegt (effektivt) eftirlit, þá skuli rísa upp stormur á móti því.