07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1657 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Hákon Kristófersson:

* Jeg ætlaði mjer ekki að ræða um þetta frv. nú, en það voru nokkur ummæli hjá háttv. 1. þm. Árn. (EE) og brtt. hans á þskj. 584, sem í rauninni er alveg nýtt frv., sem gefa mjer tilefni til að fara um það nokkrum orðum.

Háttv. 1. þm. Árn. (EE) sagði, að frv. það, sem hjer liggur fyrir, sje aðallega stílað upp á sparisjóði. Það get jeg nú ekki fallist á, því í frv. stendur, að það eigi bæði við banka og sparisjóði, og eru skýr ákvæði um það.

Sami háttv. þm. (EE) hjelt því fram, að ef hans brtt. yrðu samþyktar, þá mundi eftirlitsstarfið síður vekja tortrygni. En jeg verð að taka undir með hæstv. forsrh. (SE), að ef brtt. háttv. þm. næðu fram að ganga, þá er síður en svo, að komið verði í veg fyrir tortrygni. Það yrði illur uggur í mönnum, sem fje ættu í sparisjóðum eða bönkum, ef stjórnin sendi rannsóknarnefnd á þá, en þó að lögboðinn eftirlitsmaður kæmi og rannsakaði sparisjóðinn eða bankann, þá vekti það engan grun um, að illa væri ástatt. Það er ekki langt síðan mikill hluti þm. var sammála um, að rannsaka þyrfti hag Íslandsbanka, og ætla jeg ekkert að ámæla þeim fyrir það. En hefði lögboðinn eftirlitsmaður verið til, sem þing og stjórn bæru fult traust til, þá hefði hann getað gefið upplýsingar um það, hvort rannsókn væri nauðsynleg eða ekki. Nú er von á nýjum banka bráðum, ef til vill, og sá banki þarf að vera undir eftirliti. Er því auðsætt, að þörfin muni fremur vaxa en minka, að settur verði eftirlitsmaður; en fari illa um val á þeim manni, þá er vitanlega ver farið en heima setið.

Ef á að skipa eftirlitsmann í hvert skifti, er þurfa þykir, eins og háttv. 1. þm. Árn. (EE) fer fram á, þá mundi oft skorta á það öryggi, sem 2. gr. frv. tilskilur, að eftirlitsmaðurinn sje alveg óháður peningastofnununum og hafi ekki önnur störf á hendi. En það er brýn nauðsyn, að eftirlitsmaðurinn sje öllum óháður.

Háttv. flm. brtt. (EE) hjelt því fram, að þetta yrði hálaunað embætti. Jeg skal ekki neita því, en tek undir með hæstv. forsrh. (SE), að ef vel tekst með valið á manninum, þá muni það gott af starfinu leiða að það borgi sig. Og kostnaðurinn mundi heldur ekki verða mjög tilfinnanlegur, þar sem hann dreifðist yfir á margar stofnanir. En samkvæmt brtt. hv 1. þm. Árn. (EE) yrði hann aftur mjög tilfinnanlegur fyrir þær stofnanir, sem rannsakaðar yrðu, þar sem hver stofnun á sjálf að bera allan kostnað við eftirlit og rannsókn, sem fram kemur við hana, og yrði það tiltölulega þyngst á smæstu stofnununum. Jeg er ekki að halda því fram, að það sje nauðsynlegt með alla sparisjóði, að hagur þeirra sje rannsakaður. En víst er, að nauðsyn er til þess með suma, og að minsta kosti veit jeg af einum, sem máske hefði ekki farið eins illa fyrir, hefði hann verið undir góðu eftirliti.

Hvað það snertir, að með brtt. sje stjórninni gefin heimild til þess að rannsaka hag banka og sparisjóða, þá ætla jeg, að sú heimild sje nú þegar til og að hæstv. stjórn geti beitt henni, þegar hún vill og álítur þörf vera á.

Jeg verð að segja það, að svo framarlega sem nokkuð á fram að ganga, þá er það frv., því þar er ákvæði, sem felur í sjer öryggi, en í brtt. háttv. 1. þm. Árn. (EE) er það ekkert, nema síður sje. En ef stjórninni mishepnaðist að velja mann í þessa stöðu, ef frv. næði fram að ganga, þá væru þó miklu meiri líkindi til þess, að hinum ýmsu stjórnum mundi fremur mishepnast eftirlitið samkvæmt brtt. hv. 1. þm. Árn. (EE). Mest verður undir því komið, að valið á eftirlitsmanninum hepnist vel, og skýrir hann þá yfirboðar; sínum, landsstjórninni, frá, ef einhverstaðar fer aflaga. Slæ jeg því föstu, að hvorki verði örygginu nje kostnaðinum komið betra horf með brtt., heldur þvert á móti.

* Þm. (HK) hefir ekki yfirlesið ræðuna.