07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Jón Baldvinsson:

Þegar rætt var hjer um athugun á Íslandsbanka. var hæstv. forsrh. (SE) því máli mótfallinn og till. um það var feld. Jeg hefi svo skoðað þetta frv. nokkurskonar afsökun á framkomu þeirra þá og sem yfirlýsingu um það, að ráðherranum hafi ekki þótt sá málstaður góður, sem hann og þeir fjelagar vörðu þar.

Jeg hefi ekki heyrt þess getið, að það væru nema tvær peningastofnanir í landinu, sem nokkur ástæða væri til að athuga, einn sparisjóður og svo Íslandsbanki, og þykir því, sem eftirlitið muni verða nokkuð dýrt, þegar til lengdar lætur, að hafa fastan, hálaunaðan embættismann til þessa. Því varla verður kostnaðurinn við þetta minni en 20–30 þús. kr. á ári. Jeg hreyfði því líka við 2. umr., að óviðkunnanlegt væri að setja þjóðbankann á bekk með þeim öðrum peningastofnunum, sem þannig ætti að rannsaka og eru einkafyrirtæki, en allir starfsmenn Landsbankans eru í rauninni í þjónustu ríkisins. Er þetta þó ekki svo að skilja, að jeg sje að mæla Landsbankann undan eftirliti. Þar sem þetta frv. er fram komið aðeins vegna umtalsins um Íslandsbanka, virðist mjer það óþarft, og álít, að ná hefði mátt sama tilgangi með þeirri till., sem var hjer á ferðinni um daginn. Mun jeg því greiða atkvæði á móti bæði frv. og brtt. háttv. 1. þm. Árn. (EE).