11.05.1923
Efri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Guðmundur Ólafsson:

Jeg vitna um það til háttv. deildar, að þetta er algerlega rangt haft eftir mjer. Þetta, sem hæstv. forsrh. (SE) sagði, kemur mjer því ekkert við. En það má geta þess til, að ýmsir verði til að þiggja svona vel launaða stöðu, og þeir ekki allir ágætir.

Jeg sje ekki betur en að stjórnin hefði getað lagt frv. fram um þetta í þingbyrjun. Það var að vísu nefnt í vetur, en þá í sambandi við bankana. En nú er það upplýst, að stjórnin hefir fult vald til að láta athuga bankana og einnig sparisjóðinn á Eyrarbakka, sem vera mun illa stæður; og sama er um aðra sparisjóði, ef nokkur ástæða virtist til þess. Þetta eftirlit verður því einkum gert vegna þeirra sparisjóða, sem ekki hefir heyrst annað um en að væru vel stæðir. En það er tæplega rjett að skattleggja þessa smáu sparisjóði um 6–8 þúsund kr., þó ekki sje nema 2.–3. hvert ár.

Jeg hafði alls ekki neitt vantraust í huga, en embættaveiting getur auðvitað mistekist hjá hverri stjórn.