12.05.1923
Efri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (1459)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Jón Magnússon:

Jeg mintist á frv. þetta við 2. umræðu og veit ekki, hvort miklar umræður hafa nokkra þýðingu svona á síðustu stundu. En af því að jeg tel frv. horfa til mikilla bóta, þá vil jeg mæla örlítið með því. Það er hvorki vegna Íslandsbanka nje sparisjóðsins á Eyrarbakka, að jeg fylgi þessu máli. Heldur er það áhugamál mitt, sem flestra annara gamalla heimastjórnarmanna, frá fyrri tíð.

Slíkt eftirlit, sem hjer um ræðir, er ekki aðeins í Danmörku, heldur víða annarsstaðar — og að ekki var forðum hugsað um eftirlit nema með sparisjóðum, kom af því, að menn hjeldu, að þess þyrfti ekki, þar sem bankarnir eru undir eftirliti þings og stjórnar. En í seinni tíð hefir það eftirlit sýnst ónógt. Það er satt, að þessi eftirlitsmaður á ekki að vera nokkurskonar bankastjóri, og að því leyti er hægt að segja, að hann verði meir „kritiskur“ endurskoðandi en að hann ráði nokkru um framkvæmdir. t. d. hvort víxlar sjeu keyptir eða þess háttar. En sem tap bankanna kemur venjulega ekki alt í einu, heldur smátt og smátt, þá hlýtur slíkt eftirlit að geta haft mikla þýðingu.

Jeg fer ekkert út í það, hvort skynsamlega gætni vanti hjá peningastofnunum vorum, enda nær það mál lengra en til einnar stofnunar. Jeg hygg, að það sje ekki rjett hjá háttv. 5. landsk. þm. (JJ), að roskinn maður, t. d. 50–60 ára, sje hann heilsugóður, geti ekki ferðast eins mikið og þetta embætti mun krefja. Auðvitað má ekki velja örvasa mann í embættið, en sæmilega hraustur maður mun vissulega þola þau ferðalög. Hann á vitanlega ekki að skoða alla sparisjóðina á hverju ári, heldur skiftir hann þeim niður, þannig, að hann komi hæfilega oft til hvers þeirra.

Jeg fæ ekki sjeð, að nokkur sú ábyrgð fylgi því að samþykkja frv. þetta, sem þessi háttv. deild þarf að óttast. Hjer á að vísu að stofna nýtt embætti, sem kostar nokkuð, en ábyrgðin síst meiri en við stofnun til annara nýrra útgjalda, og hefir þetta þing ekki verið hrætt við þau.

Það er rjett, og það hefi jeg tekið fram áður, að verði ekki valinn vel hæfur, fjárhagslega óháður og einarður maður í þetta embætti, þá er til lítils að samþykkja frv., en hæstv. forsætisráðherra hefir lýst því yfir við 2. umr., að ekki verði öðrum veitt staðan en vel hæfum manni í hvívetna.

Hæstv. fjrh. (KIJ) sagðist ekki hafa komið auga á neinn, sem hann treysti til að takast þetta embætti á hendur. Jeg trúi því reyndar, að hann hafi ekki ákveðið neinn, en hins vegar býst jeg við, að hann geti hugsað sjer einhvern vel hæfan mann, sem hægt væri að treysta. Mjer er óskiljanlegt, hvers vegna hv. 5. landsk. þm. (JJ) er á móti þessu frv. Frv. hans um bankaráð Íslands fór í svipaða átt. Það bankaráð hefði aldrei haft annað verulegt vald en „negativt“. eða „kritiskt“ eftirlit, einkum eftir því, hvernig það átti að vera saman sett.