12.05.1923
Efri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Jónas Jónsson:

Það hefir nú komið í ljós undir umr. í dag, að hæstv. landsstjórn hefir enn ekki komið auga á neinn hæfan mann í þessa stöðu. En einn af þeim listamönnum, sem sæti eiga hjer á Alþingi. hefir gert teikningu af þessu hugarfóstri hæstv. forsætisráðherra, og hefir þetta ófædda embætti hlotið nokkra frægð af því. Þar sem hæstv. fjrh. (KIJ) hefir lýst yfir því, að hann sæi engan mann, sem til þess væri fallinn, þá er það ilt. Því eins og það er vont að stofna embætti vegna manns, eins er það og ilt að stofna embætti, sem enginn hæfur maður finst í. Jeg skal taka það fram, að talað hefir verið um, að einn af prófessorum háskólans hafi í hyggju að fara burt, til útlanda, og að vandræði muni verða um að fylla sæti hans. Hefir þá komið til orða, að embættið yrði lagt niður um stund, fremur en að setja í það lítt hæfan mann. Sjest af þessu, að ekki er nóg að hafa embættin, ef mennina vantar. Í þessu sambandi má minna hæstv. forsrh. (SE) á, að embættaveiting er stundum ekki svo auðvirðilegur hlutur nje skjótgerður. T. d. hefir dregist að skipa í bankastjórastöðurnar í Íslandsbanka í 2 ár. Fyrst drógst það heilt ár áður en þeim var slegið upp, og svo, þegar margir eru búnir að sækja, skriflega og símleiðis, þá telur stjórnin engan hæfan, og setur því menn í stöðurnar, og varð að taka annan manninn úr þýðingarmikilli stöðu í stjórnarráðinu. Jeg vildi því skjóta þeirri spurningu til hæstv. forsrh. (SE), hvernig hann hugsar sjer að ganga muni að finna hæfan mann í þessa stöðu, þar sem skipun bankastjóranna í Íslandsbanka varð honum jafnmikil krossferilsganga, sem óleyst er enn.

Ræða háttv. 4. landsk. þm. lýsti aðeins góðri trú á þessari embættisstofnun. Hann var þó sammála mjer um það, að vel þyrfti að skipa í embættið. En nú er málinu flaustrað í gegn undirbúningslaust. En jeg vildi gjarnan fá skýringu á því hjá háttv. þm. (JM), hvers vegna hann álítur heppilegt, að þetta eftirlit nái til Landsbankans, sem samkvæmt öðrum lögum er háður miklu fyllra eftirliti, þar sem landsstjórnin er. Enn fremur vil jeg spyrja sama háttv. þm. (JM), hvort slíkt eftirlit sje látið ná til þjóðbankans danska þar í landi. Jeg held, að þetta eftirlit verði miklu ljelegra hjá manni, sem er hingað og þangað úti um land, heldur en eftir gildandi lögum, þar sem eftirlitið má framkvæma daglega.

Jeg er háttv. 4. landsk. þm. (JM) að nokkru sammála um það, að gagn gæti orðið að eftirliti með sparisjóðum, en þá athugun mætti framkvæma án þess að stofna fast embætti. Og í þessari embættisstofnun felst engin sönnun fyrir því, að það brot af eftirliti, sem bankar og sparisjóðir fá, verði að nokkrum notum. Að vísu býst jeg við, ef stofnaður verður nýr banki, að hann þurfi eftirlits við; ef framhaldið verður eins glæfralegt og meðferð málsins hjer í gær, þá má vera, að hann verði líkur sínu foreldri.

Viðvíkjandi því, sem hv. 4. landsk þm. (JAI) sagði um, að hættan væri þá bara laun mannsins, ef illa tækist um valið, þá er slíkt tal ærið fávíslegt. Landið munar um hver 17 þús. í launum, ef lítið eða ekkert kemur í staðinn. Jeg býst við, eftir allri reynslu, að veita yrði manni þessum eftirlaun, ef hann reyndist óhæfur.

Hvað starfsemi þessa manns við bankana áhrærir, þá getur hann naumast lagt neinar línur um starfsemi þeirra; til þess hefði slíkt bankaráð, sem jeg lagði til í vetur að stofnað væri, verið betur fallið.