22.02.1923
Neðri deild: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

5. mál, útflutningsgjald

Jakob Möller:

Mjer kom alls ekki á óvart, þótt hæstv. stjórn kæmi fram með þetta frv. Það hefir nú farið svo þing eftir þing, að altaf hafa verið gefin hálfgerð loforð um að afnema þetta óþokkaða gjald, en enn þá hefir það ekki komist lengra en að verða loforð. Nú var ekki einu sinni gefið neitt loforð. Er það í fyrsta skifti, og mætti af því ráða, að lögum þessum sje nú ætlað að verða hjer landlæg. Jeg hefi altaf greitt atkvæði á móti þessu gjaldi frá því er það kom fyrst til umr. hjer á þinginu. Mjer finst það bæði óviðeigandi og ranglátt, og þó fremur nú en í byrjun. Eins og menn vita, er það til orðið á mestu gróðaárunum. Þótti mörgum þá sjálfsagt, að ríkissjóðurinn yrði aðnjótandi þess mikla gróða, sem rann þá inn á hendur einstakra manna, og skyldu þeir því gjalda þessar prósentur í ríkissjóð af útfluttum afurðum sínum. Nú ætti öllum að vera það kunnugt, að ekki er lengur um neinn gróða að ræða á þessu sviði, svo óþarft er að leggja gjaldið á þess vegna. En að leggja gjald á tap virðist hvorki hyggilegt nje rjettlátt.

Hæstv. fjrh. (MagnJ) sagði, að ríkissjóðurinn mætti síst við því nú að missa þessar tekjur. Jeg býst við, að ríkissjóður Íslendinga verði seint svo fjáður, að hann hafi ekki fulla þörf á tekjum sínum. En hjer er þetta spursmálið, hvort ekki megi fá þessar tekjur á einhvern annan aðgengilegri hátt.

Sem kunnugt er, hefir hæstv. stjórn nú líka lagt fram frv. um breyting á tekjuskattinum, sem fer fram á allverulega hækkun tekjuskatts á hinum hærri tekjum. Þar ætti þá ríkissjóðnum að vinnast fje, sem gæti komið fyrir útflutningsgjaldið. Er þeim mun síður ástæða til að láta þetta tvent fara saman, að báðir þessir skattaliðir koma einmitt til að skella á sömu mönnunum. Skal jeg að minsta kosti ekki verða með hækkun tekjuskattsins, ef þetta rangláta gjald verður samþykt. Annars var það ekki ætlun mín að vekja umræður um málið að þessu sinni, þar eð jeg hvort sem er býst ekki við að það verði felt við þessa umr.