04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

5. mál, útflutningsgjald

Björn Hallsson:

Jeg hefi altaf verið á móti útflutningsgjaldinu, því það er óhapparáð að íþyngja svo framleiðslunni um of. En það hefir teknanna vegna reynst óhjákvæmilegt að framlengja gjaldið ár eftir ár, þar sem það gefur af sjer um 700 þús. kr. Jeg held líka, að það verði ekki hjá því komist að framlengja það enn, þó ilt sje í sjálfu sjer. Og ef svo er gert, er rjettast að framlengja það eins og það er, en ekki með brtt. háttv. 1. þm. Reykv. (JakM); því hvar á þá að taka þær tekjur, sem þannig missast? Hann mun benda á beina skatta, en jeg er nú ekki eins trúaður á þá og hann, og önnur tekjuaukafrv. hafa gengið hjer heldur treglega, svo sem vörutollurinn, en þar álít jeg, að ýmislegt hafi verið rjettmætt. Jeg verð því að neyðast til að greiða atkvæði með framlengingu útflutningsgjaldsins, þar sem á annan hátt verður ekki sjeð fyrir tryggilegum tekjum.