04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

5. mál, útflutningsgjald

Björn Hallsson:

Háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) vildi reyna að hrekja það, sem jeg sagði um, að tekjuskatturinn hefði verið lækkaður á þessu þingi. En þetta er rjett hjá mjer. Skattstiginn er lægri nú á lágu tekjunum, og auk þess kemur nú til frádráttar bæði útsvör og tekju- og eignarskattur, sem ekki komu áður. Hefi jeg líka heyrt, að skatturinn mundi lækka um 1/3 eða meira hjer í Reykjavík. Auk þess hefi jeg sannfrjett það utan af landi, að við þessa breytingu hafi skattur lækkað um helming þar, sem búið var að reikna hann út, og var svo endurskoðaður eftir lögum þessa þings Þess vegna greidd jeg atkvæði á móti þessari skattlækkun nú, að jeg sá, að skattur hyrfi að mestu í sveitum, og það kærði jeg mig ekki um. Skiftir hins vegar minstu, hvað tekjuskatturinn er á pappírnum, heldur hvað mikill hann reynist innheimtur. Þegar jeg kom til Reykjavíkur, var óinnheimtur helmingur tekjuskattsins hjer, og gefur þetta bendingu um það, að mikil afföll verði á innheimtu hans. Með þessu, sem jeg hefi nú sagt, hefi jeg sýnt háttv. 1. þm. Reykv. væntanlega fram á, að jeg hafði rjett fyrir mjer hvað tekju- og eignarskattinn snertir. Held jeg megi neita gott, ef skatturinn nær áætlun, eftir því sem hann kemur út nú eftir þessa breytingu, því afföll verða eflaust á innheimtu hans, þótt hann lækki, eins og áður var.

Háttv. þm. (JakM) sagði, að jeg vildi auka tekjurnar. Auðvitað vil jeg það þótt jeg segði það nú ekki. En mig undrar, að háttv. þm. skuli vilja lækka útflutningsgjaldið um helming, án þess að stuðla að því, að fram komi tekjuaukafrv. það, sem er í fjhn. Hefði verið hægt að lækka útflutningsgjaldið, ef það hefði komið, en nú er það ófært. Hann taldi, að það væri óvíst, hvort heppilegt væri, að stjórnin hefði tekjuhallalaus fjárlög, því að hætt væri við, að hún yrði þá ógætnari. Má vera, en annars er það nú þingið, er undirbýr þetta í hendur stjórnarinnar En varhugavert sýnist það að skila fjárlögum ár eftir ár með tekjuhalla. Hvenær komumst við úr skuldum með því lagi.

Háttv. frsm. meiri hl. (MG) gaf þær upplýsingar sem lögfræðingur og vel kunnugur tollmálum, sem fyrv. sýslumaður, að frv. háttv. Ed. væri svo úr garði gert, að tollskoðun þyrfti að fara fram, ef það yrði að lögum. Jeg skal nú ekki fullyrða um þetta, en jeg skal játa, það, að mjer líkaði frv. betur, er það fór hjeðan. Andinn í því nú er allur annar.