04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

5. mál, útflutningsgjald

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Hv. frsm. meiri hl. (MG) spurði, hvar það endaði, ef altaf væri haldið áfram að safna skuldum. En hvar endar það, ef altaf er haldið áfram í því að íþyngja atvinnuvegunum með sköttum? Það endar svo, að ríkissjóður fær engar tekjur, því að enginn stofn verður til að leggja á. Held jeg, að þetta sje hættulegri braut að fara inn á heldur en þótt lítill tekjuhalli verði eitt ár.

En það er ekki rjett, að ríkissjóður safni skuldum, þótt farið sje hjer að till. mínum, því að tekjurnar munu samt hrökkva fyrir útgjöldum, þegar þess er gætt, að 1200 þús. eru lögð til hliðar í fjárlögunum. Annars verð jeg að efast um, að stjórnin hafi heimild til þess að byggja Klepp fyrir þessa árs tekjur. Er lögin um húsabyggingar voru samþykt, var heimilað að taka lán til þess, en ekki að verja venjulegum árstekjum ríkissjóðs til þess.

Háttv. frsm. meiri hl. (MG) sagði, að það væri bæði rjett og rangt hjá háttv. 2. þm. N.-M. (BH), að tekjuskatturinn hefði lækkað. En þetta er algerlega rangt hjá hv. 2. þm. N.M. Tekjuskattsáætlunin hefir hækkað, en ekki lækkað, og við það eitt er hægt að miða. Auk þess hefir allur starfrækslukostnaður ríkisins minkað, og er því full ástæða til að ætla, að skattarnir gætu lækkað.

En ef aðeins er hugsað um það, að hafa tekjurnar sem ríflegastar, en engar hömlur lagðar á eyðsluhvöt stjórnarinnar, þá er ekki góðs að vænta. Hv. frsm. meiri hl. (MG ) hafði það eftir stjórninni, að óhjákvæmilegt væri að halda útflutningsgjaldinu, en jeg hygg, að svo reynist ekki, því að gjöldin fara nú sífelt minkandi, og það bjargaði afkomu síðasta árs, sem sjá má af því, að tekjuhalli á fjárlögunum 1922 var áætlaður 2.5 milj., en varð ekki nema 1 miljón, eða minni, samkvæmt skýrslu stjórnarinnar. Held jeg fast við skoðun mína um þetta og mun bera fram brtt. við 3. umr.